135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

brottfall vatnalaga.

8. mál
[21:06]
Hlusta

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að sú umræða sem hér fer fram, og er svona svolítið á hlaupum í nokkurra mínútna tilsvörum, sé mjög mikilvæg, að menn ræði um grundvallaratriði. Hv. þingmaður vék að markaðsvæðingu undangenginna ára og eitt af því sem umdeildast var í einkavæðingunni var einkavæðing ríkisbankanna. Í okkar huga í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði er það ekki sáluhjálparatriði að ríkið eigi eða reki banka, langt í frá, heldur var þetta praktísk spurning þar sem við veltum því upp hvað mundi gerast í agnarsmáu hagkerfi á borð við okkar þegar beggja vegna borðsins sæti eigandi bankans og sá sem þægi lán frá bankanum.

Síðan hefur það náttúrlega gerst sem við verðum vitni að að samráð þessara fáu banka á markaði er með þeim hætti að vextirnir eru nánast hinir sömu og hver kemur þá til skjalanna til að færa þá niður til hagsbóta fyrir almenning annar en ríkið? Það er Íbúðalánasjóður sem hefur stuðlað að því að vextirnir eru þó ekki hærri en þeir eru. Ég nefni þetta sem dæmi um nálgun okkar til einkavæðingar og markaðsvæðingar. Við leggjum síður en svo að jöfnu einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar eða ýmsa þætti velferðarþjónustunnar annars vegar og bankastarfsemi, skipaútgerð og aðra þætti af því tagi hins vegar.