135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

brottfall vatnalaga.

8. mál
[21:08]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alltaf spurning með hvaða hætti og hvernig menn nálgast hlutina. Það er nú svo að bankastofnanir eru víða í einkaeigu eins og hér á landi og íslensku bankarnir eiga meira að segja útibú í nágrannalöndum okkar og bjóða viðskiptavinum sínum þar upp á lægri vexti og betri lánakjör en Íbúðalánasjóður býður viðskiptavinum sínum hér. Þá er spurning hvort Íbúðalánasjóður er eitthvað sem skiptir máli í þessu sambandi eða hvort einhverjir aðrir hlutir valda því að umhverfið fyrir neytandann er hagkvæmara en gerist í bankaumhverfinu hér án þess að ég sé að gera lítið úr þætti Íbúðalánasjóðs sem skiptir máli en spurningin er kannski líka varðandi hann, hvort menn þurfi ekki að skilgreina betur hvert hlutverk hans á að vera í framtíðinni.

Spurningin varðandi bankaþjónustuna og hvort við höfum búið hér þann ramma, það umhverfi að þar sé um nægilega fullkomið samkeppnisumhverfi að ræða, þá er svarið einfaldlega nei, vegna þess að þessar sömu stofnanir sem eiga sambærilega viðskiptabanka á hinum Norðurlöndunum bjóða viðskiptavinum sínum þar upp á betri kjör en þeir bjóða íslenskum neytendum. Það er dálítið sérkennilegur mergur málsins. Hvernig skyldi standa á því? Jú, bankamennirnir segja að það sé vegna þess að það kosti svo mikið að hafa íslensku krónuna. En það getur ekki verið einhlít skýring. Það koma fleiri atriði til en þar eins og í svo mörgum öðrum hlutum verðum við einmitt að gjalda varhuga við og það er akkúrat þetta: Við búum í svo agnarsmáu þjóðfélagi að markaðsstarfsemin verður oft erfið og þá skiptir miklu máli að gæta þess að passa upp á að samkeppnin sé ekki eyðilögð.