135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2007/2008.

5. mál
[21:28]
Hlusta

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Hv. þm. Grétar Mar endaði ræðu sína áðan á því að lýsa því yfir að hann og þingflokkur hans ættu eftir að flytja mörg mál um stjórn fiskveiða og breytingu á þeim. Ég vara við því. Það er ekki til bóta fyrir lögin um stjórn fiskveiða að gera á þeim fleiri breytingar en þegar eru orðnar. (Gripið fram í.) Já, og það þyrfti að gera það.

Ég leit með hraði yfir þau í dag og held að búið sé að gera breytingar á öllum greinum laga um stjórn fiskveiða nema 1. gr. Það er reyndar greinin um markmið laganna, þ.e. að efla atvinnu í landinu, treysta byggð, stækka fiskstofnana og gera nýtingu þeirra hagkvæma. Auk þess er þar ákvæðið fræga í 1. gr. um að auðlindir sjávar skuli vera í sameign þjóðarinnar. Ég held að það sé eina greinin sem er óbreytt frá upphafi enda er hún sú besta en hún setur lögunum markmið sem engan veginn hafa náðst.

Ég vara því við því að flytja fleiri breytingartillögur við lögin um stjórn fiskveiða. Þau lög þarf að vinna algjörlega upp frá grunni, frá núllpunkti, og byggja nýja sjávarútvegsstefnu fyrir þjóðina vegna þess að núverandi stefna hefur ekki gengið. Þetta vita flestir sem líta á málið með sæmilegri sanngirni.

Einar Oddur Kristjánsson alþingismaður, sem lést í sumar, sagði þegar hann heyrði um niðurskurð í þorskveiðunum, þessi orð við Morgunblaðið, með leyfi forseta:

„Það hlýtur hver einasti maður sem ekki er blindur og heyrnarlaus að sjá að þetta hefur mistekist.“

Ég tek undir það.