135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2007/2008.

5. mál
[22:06]
Hlusta

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Hv. þm. Illugi Gunnarsson nefndi það hér áðan, og hælir enn ráðherra sínum að sjálfsögðu — og það er ekkert nema gott um það að segja — fyrir að taka þá ákvörðun um að deyfa áfallið. (Gripið fram í: Aldrei of mikið gert af því.) Það er aldrei of mikið gert af því, nei, að hann hafi tekið þá djörfu ákvörðun að deyfa áfallið við niðurskurð á þorskveiðum með því að fara út á ystu nöf með aðra fiskstofna, þ.e. að hundsa ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar í flestum öðrum fiskstofnum nema þorski vegna þeirrar ákvörðunar sinnar að skera niður þorsk eingöngu. Það er ekki annað sem býr þar að baki í raun og veru þegar hann tekur ákvörðun um að hundsa ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar í 12 fisktegundum af 17. Það eru í sjálfu sér ekki góð rök í fiskifræðinni eða til þess ætlað að byggja upp fiskstofna að gera þetta eingöngu af þessari ástæðu.

Ég nefndi fyrr í dag nokkrum sinnum þá ákvörðun að beina sókninni meira inn á það að veiða smáýsu þvert ofan í það sem Hafrannsóknastofnun ráðleggur. Þá er ég að horfa á það út frá sjónarhóli fiskifræðinnar og þeirra aðferða sem við erum að reyna að beita til að byggja upp ýsustofninn. Það gengur þvert á það sem Hafrannsóknastofnun nefnir.

En við erum sammála um þá þætti samt, ég og hv. þm. Illugi Gunnarsson, að okkur ber að auka umræðuna og reyna að fá hana inn á fleiri svið en nú. Okkur ber að beita okkur í því.

Ég sé hins vegar ekki í raun hvað við græðum á því að ætla einhverri stofnun, hvort sem það er Háskóli Íslands eða einhver önnur, að taka ákvörðun og veita ráðgjöf við fiskveiðar byggða á sömu gögnum og Hafrannsóknastofnun vinnur sínar tillögur úr. Það á sem sagt ekki að fara fram nein rannsóknarvinna af hálfu þeirra stofnana sem Illugi stingur upp á heldur á bara að skiptast á (Forseti hringir.) gögnum og komast að sömu niðurstöðu væntanlega.