135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

tilraunaveiðar í Ísafjarðardjúpi.

[15:03]
Hlusta

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að vekja athygli þingheims á þeim tilraunaveiðum sem standa yfir í Ísafjarðardjúpi þar sem nú er verið að gera tilraunir með botnveiðarfæri, botntroll, í þeim tilgangi að reyna að skilja að ýsu og þorsk úr vörpunni þannig að ekki verði nema önnur tegundin eftir, að eigin vali, og er allt gott um það að segja. Ekki ætla ég leggjast gegn tilraunum með veiðarfærum af því taginu til og hvet til þess að þróun í veiðarfærum verði áfram með því móti.

Hitt ætla ég að gera athugasemdir við og það er hvers vegna þessar tilraunaveiðar fara fram inni í Ísafjarðardjúpi, inn um alla firði í Ísafjarðardjúpi á viðkvæmu hafsvæði, mjög viðkvæmu hafsvæði hvað varðar lífríki sjávar, hvað varðar fiskstofna og á árstíma þar sem veiðar á rækju hafa ævinlega verið stöðvaðar. Á þessum tíma eru rækjuseiðin, ungviðið, ekki gengin út í dýpið og ekki út af fjörðunum og út á hafsvæðið þar sem þau ætla síðan að vaxa og dafna og koma aftur í veiðanlegu ástandi. Þetta gengur þvert á allar ráðstafanir sem Hafrannsóknastofnun og sjávarútvegsráðherra hafa haft uppi varðandi friðun og verndun á rækjustofninum í Ísafjarðardjúpi. Það eru vísbendingar í þá veru sem betur fer að stofninn sé loksins að rétta úr kútnum eftir margra ára lægð. Síðustu rannsóknir Hafrannsóknastofnunar benda til þess og þá er farið út í þennan leiðangur.

Á hvers vegum eru þessar rannsóknir? Hvernig stendur á því að þær eru gerðar núna á veiðisvæðum þar sem smábátasjómenn eru að reyna að stunda veiðar, m.a. með línu, í tíðarfarinu eins og það er núna? Þeir komast ekki út á hafið til að veiða og þá reyna þeir að stunda iðju sína þarna inni á fjörðum. Ég vil vekja athygli þingheims á því að þetta stangast algjörlega á við tillögur og frumvarp sjávarútvegsráðherra (Forseti hringir.) um verndun lífríkis sjávar sem fékk allmikla umræðu á fimmtudaginn var.