135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

tilraunaveiðar í Ísafjarðardjúpi.

[15:10]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Hæstv. þingforseti. Ég sakna þess að sjávarútvegsráðherra sé ekki í salnum vegna þess að hér er verið að ræða um störf og vinnubrögð þingsins, kannski sérstaklega það sem hæstv. sjávarútvegsráðherra er að leyfa núna, þ.e. svokallaðar tilraunaveiðar í Ísafjarðardjúpi.

Það er ótrúlegt að leggja í síðustu viku fram frumvarp um verndun lífríkis í hafinu og tala þar fögrum rómi um að sjávarútvegsráðherra þurfi að fá sérstaka heimild til að geta lokað svæðum, en það fyrsta sem maður fréttir er að þúsund tonna togari sé farinn að toga inn um alla firði í Ísafjarðardjúpi og gera tilraunir með það að flokka ýsu frá þorski í trollinu. Það er mjög lofsvert. Ég held að flestir skipstjórnarmenn hafi ekki mikla trú á þessari tilraun en við skulum samt ekki útiloka að hún geti með einhverjum hætti orðið til góðs. Það er auðvitað alltaf gott ef menn eru með neðansjávarmyndavélar að kanna og rannsaka hlutina. Það er og verður alltaf af því góða. Ég hefði samt haldið að það væri nær að gera þetta á venjulegu dýpi sem togarar mega vera á og á þeim botni þar sem togarar geta verið en ekki inni á fjörðum og ekki velja Ísafjarðardjúpið til tilraunaveiða.