135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

tilraunaveiðar í Ísafjarðardjúpi.

[15:18]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf):

Herra forseti. Ég vil bara taka það fram að hv. þingmaður sem talaði hér síðast virðist greinilega hafa misskilið mig. Ég var að segja að það væri gleðilegt ef menn fara út í rannsóknir á því hvort hægt sé að skilja að ýsu og þorsk á togveiðum. Mér finnst það í raun og veru með eindæmum og skrýtið svona miðað við það sem ég hef kynnst á hafinu. Reyndar er orðið svolítið síðan ég var sjómaður.

Hitt vil ég líka nefna að ég er alveg sannfærður um að hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur ástæður fyrir fjarveru sinni hérna og mér þykir leitt að hann skuli ekki vera hér í salnum þegar tekið þetta mál er tekið til umræðu. (Gripið fram í.)

Hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir er úti í New York í Bandaríkjunum ásamt hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni á þingi Sameinuðu þjóðanna þannig að ég sem varaformaður sjávarútvegsnefndar fann mig knúinn til ræða þessi mál hér af þeim sökum.

Mér finnst auðvitað alveg hrikalegt ef Hafrannsóknastofnun fer fram með þeim hætti að hún sé að ryðjast yfir þá sem eru á fiskislóð með yfirgangi og ég veit ekki hverju. Ég vona að þessar rannsóknir muni ekki standa í fleiri, fleiri mánuði eða það langan tíma að sjómenn vestra þurfi að binda báta sína við bryggju og geti ekki veitt neitt í vetur. Það væri náttúrlega mjög slæmt.

En er ekki allt lífríki hafsins viðkvæmt? Hvort sem það er inni í fjörðum eða annars staðar? Auðvitað veit ég að það eru seiði þarna. (Forseti hringir.) En það er annars staðar líka viðkvæmt.