135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

tilraunaveiðar í Ísafjarðardjúpi.

[15:20]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Veiðislóðir eru misjafnlega viðkvæmar fyrir togveiðifæri. Og það er kannski ekki sama hvort dregin er varpa af skipi sem hefur 200, 300 hestafla vél eða mörg þúsund hestöfl, eða miklu stærri veiðarfæri. En látum það liggja á milli hluta. Málið snýst kannski ekki aðallega um það. Það snýst um að þarna er verið að gera tilraunir. Ég hefði talið einfaldlega að það hefði verið miklu marktækara að gera þessar tilraunir úti á Hornbankasvæðinu eða kringum Reykjafjarðarálinn þar sem flotinn hefur verið að veiða ýsu undanfarna daga og fá þá raunhæfan samanburð, bæði við skipin á slóðinni og ekki síður að kanna þetta Hornbankasvæði, sem togaraskipstjórar hafa verið að biðja um undanfarna mánuði að fá að nýta. Þá hefðu menn kannski slegið tvær flugur í einu höggi og komið þekking úr því.

Hitt vil ég segja, að ég sé ekki ástæðu til þess að vera að hleypa slíkum tilraunaveiðum inn á flóa og firði. Það hlýtur að vera nægt svæði á Íslandsmiðum til að gera það öðruvísi.

Varðandi það hvernig fiskur hagar sér í trolli, þá er rétt að upplýsa það að almennt leitar ýsan upp, eins og flestar sálirnar, það er hegðun ýsunnar að leita upp í trollið og þorska að leita niður. Þetta geta menn séð ef þeir nenna að setjast yfir neðansjávarmyndir og horfa á þær í rólegheitunum í svona einn klukkutíma. Þá sjá menn þessa eðlishegðun fiskanna. Ýsan leitar upp en þorskurinn yfirleitt niður.

Þess vegna er það svo að menn hafa haft áhuga á því að gera svona tilraun og vita hvort það væri hægt að sortera fiskana í tvo poka á vörpunni, efri poka og neðri poka. En þær tilraunir þurftu ekki að fara fram í viku í Ísafjarðardjúpi og eyðileggja þar með veiðislóð smábátanna til kannski nokkurra daga eða vikna.