135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[15:23]
Hlusta

Flm. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem varða sölu áfengis og tóbaks en frumvarpið flytja 17 hv. alþingismenn úr þremur stjórnmálaflokkum.

Þingmönnum ætti að vera þetta mál að góðu kunnugt vegna þess að það er nú lagt fram fimmta árið í röð en hefur á síðustu fjórum árum ekki hlotið afgreiðslu.

Með frumvarpinu er lagt til að einkasala Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins með annað áfengi en sterkt áfengi verði aflögð en með sterku áfengi er yfirleitt átt við áfengi með meiri vínandastyrk en 22%.

Á undanförnum árum og áratugum hefur hið opinbera dregið sig út úr atvinnurekstri á mörgum sviðum þar sem talið er að einstaklingar og fyrirtæki geti stundað viðkomandi starfsemi betur eða a.m.k. jafn vel og hið opinbera. Nú er svo komið að til algerra undantekninga heyrir ef ríki eða sveitarfélög standa í verslunarrekstri. Ein þeirra undantekninga er sala á áfengum drykkjum til einstaklinga en Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hefur enn sem komið er einkaleyfi á því að selja almenningi áfengi í smásöluverslun auk heildsöludreifingar á tóbaki og tóbaksgerðar.

Lengi framan af var sala áfengis algerlega í höndum ÁTVR, þ.e. fyrirtækið átti eða leigði húsnæði undir áfengisverslunina víðs vegar um landið og einungis starfsfólk þess afgreiddi áfengið. Í seinni tíð hefur orðið nokkur breyting á þessu og á nokkrum stöðum á landinu sjá einkaaðilar um sölu á áfengum drykkjum fyrir Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins með sérstöku samkomulagi við fyrirtækið. Ekki verður annað séð en að þetta fyrirkomulag hafi gefist vel. Þetta leiðir hugann að þeirri spurningu hvers vegna ríkið eigi yfirleitt að standa í rekstri slíkra verslana. Erfitt er að finna rök fyrir tilvist Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins en aftur á móti eru fjölmörg rök gegn henni. Í ársskýrslu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins fyrir árið 2002 reifar stjórnin helstu röksemdina fyrir ríkiseinkasölu, en á bls. 9 í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Forvarnahlutverk ÁTVR felst nú fyrst og fremst í því að fylgja eftir lagaákvæðum um lágmarksaldur þeirra sem kaupa áfengi.“

Þá segir að stefnan sé að nýta áhrifamátt fyrirtækisins til að, með leyfi forseta, „hlúa að vínmenningu í landinu og miðla upplýsingum um afleiðingar á misnotkun áfengis“.

Þetta verða að teljast afar haldlítil rök til að viðhalda ríkiseinkasölu með vörur. Rétt er að benda á að einkaaðilum er treyst til að framfylgja reglum um lágmarksaldur til að kaupa tóbak og hið sama ætti þá væntanlega að gilda um sölu áfengis. Þá verður að spyrja hvort það sé hlutverk ríkisins að hlúa að tiltekinni vínmenningu í landinu með ærnum tilkostnaði.

Um rökin gegn ríkiseinkasölu skal í fyrsta lagi nefna að einkaaðilar hafa séð um rekstur slíkra verslana með góðum árangri. Í öðru lagi er aðilum eins og verslunarmiðstöðvum og byggðarlögum mismunað eftir staðsetningu útibúa. Í þriðja lagi má nefna kostnaðinn af versluninni; ólíklegt má telja að ríkisfyrirtæki reki þessar verslanir með hagkvæmari hætti en einkaaðilar mundu gera. Má í þessu sambandi benda á að fastafjármunir Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins voru á bókfærðu verði í efnahagsreikningi 31. desember 2002 um 1 milljarður kr. en eignir alls ríflega 3,2 milljarðar kr. Eigið fé fyrirtækisins var ríflega 2,1 milljarður kr. Fjármunir sem fengjust með sölu eigna fyrirtækisins mundu nýtast ríkissjóði vel. Eftir sem áður gæti ríkisvaldið náð öllum þeim markmiðum sem það hefur sett sér í áfengismálum. Það eina sem mundi breytast er að verslunin yrði í höndum þeirra sem eiga að sjá um verslun, þ.e. einkaaðila, og ekki yrði um að ræða eins sterkt skömmtunarvald á þessari þjónustu af hendi hins opinbera og nú er. Leyfin til að selja áfengi yrðu veitt af sveitarstjórnum með svipuðum hætti og leyfi til vínveitingahúsa.

Breytingin á verslun með áfengi og tóbak sem hér er lögð til er að aðrir en ríkið fái að sjá um smásölu léttvíns og bjórs eins og á öðrum sviðum en ekki er um að ræða breytingu á áfengisstefnu, áherslum í tóbaksvörnum eða tekjuöflunarkerfi ríkisins á þessu sviði. Þó er lagt til að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins sjái eitt um sölu sterks áfengis en verði áfram heimilt að dreifa öllu áfengi í heildsölu og smásölu.

Herra forseti. Á 123. löggjafarþingi flutti Guðlaugur Þór Þórðarson tillögu til þingsályktunar um afnám einokunar ríkisins á smásölu áfengis og urðu töluverðar umræður um málið í þinginu. Þá hefur fyrrverandi þingmaður, Vilhjálmur Egilsson, ítrekað lagt fram frumvarp til laga um breytingu á einkasölu ríkisins á áfengi en það hefur ekki náð fram að ganga.

Fróðlegt er að skoða þetta með tilliti til sögunnar því að Áfengisverslun ríkisins, fyrirrennari Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, var sett á laggirnar árið 1922 þegar bannlögunum var aflétt og Tóbakseinkasalan var stofnuð í byrjun fjórða áratugarins þegar menn voru mjög gjarnir á að setja einokunarlög og hin ýmsu höft í íslenska löggjöf. Þar má t.d. nefna einkaleyfi á síldarsölu, einkasölu á viðtækjum, einkarétt til útvarpsreksturs. Seinna komu ýmis lög og höft eins og einokun á sölu bifreiða, símtækja og annars slíks og fyrir einungis um 15 árum var ríkið með einokun á því að flytja inn eldspýtur. Þessum höftum hefur sem betur fer öllum verið aflétt

Í frumvarpi því sem ég mæli hér fyrir er gert ráð fyrir að sveitarstjórnir geti veitt einstaklingum og lögaðilum leyfi til smásöluverslunar með léttvín og bjór. Samkvæmt gildandi lögum veita sveitarstjórnir á hverjum stað smásöluleyfi fyrir áfengi og verður það fyrirkomulag í sjálfu sér óbreytt þrátt fyrir að fleiri endurseljendur komi nú til greina. Þá er gert ráð fyrir að óheimilt verði að selja áfengi og tóbak undir kostnaðarverði en með því er átt við endanlegt kaupverð dreifingaraðila að viðbættum opinberum gjöldum, svo sem áfengisgjaldi og tóbaksgjaldi, að viðbættum virðisaukaskatti. Er þetta gert til að tryggja hagsmuni ríkissjóðs af innheimtu opinberra gjalda af þessari vöru og koma í veg fyrir óeðlilegt undirboð. Hins vegar ætti þetta fyrirkomulag ekki að raska eðlilegri samkeppni á markaðnum fyrir einstakar vörutegundir.

Herra forseti. Rétt er að vekja athygli á því að í frumvarpinu er gert ráð fyrir nokkrum takmörkunum á veitingu smásöluleyfis. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að sveitarstjórnir ákveði afgreiðslutíma, svo sem verið hefur, þó þannig að verslanir með áfengi mega ekki vera opnar lengur en til kl. 20.00. Þá er það gert að skilyrði að starfsmenn sem afgreiða áfengi skuli vera a.m.k. 20 ára. Sveitarstjórnum verður eftir sem áður heimilt að binda smásöluleyfi frekari skilyrðum, svo sem um staðsetningu verslana, aðgengi, merkingar o.fl. Þá er gert ráð fyrir að ekki verði leyft að selja áfengi í tilteknum tegundum verslana. Eru hér einkum hafðir í huga söluturnar, myndbandaleigur og söluvagnar. Leitast er við að skilgreina þessa starfsemi nánar með vísan til ÍSAT-flokkunarkerfisins. Gert er ráð fyrir að áfengissmásalar greiði gjald til ríkissjóðs fyrir leyfi til að selja áfengi í smásölu, líkt og gildir um innflutnings- og heildsöluleyfi fyrir áfengi.

Lagt er til að heimild ráðherra í 12. gr. áfengislaga til að ákveða hámarksafgreiðslutíma og önnur sérstök skilyrði varðandi smásöluleyfi í reglugerð verði felld brott enda er gert ráð fyrir að ákvörðun um leyfisveitingu færist til sveitarstjórna.

Herra forseti. Ég vil leggja áherslu á það að í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að flutningsmenn þessa frumvarps leggja áherslu á að taka þurfi til skoðunar áfengisgjald sem er lagt á allt áfengi samkvæmt lögum nr. 96/1995, um gjald á áfengi og tóbaki, t.d. með því að lækka áfengisgjaldið í þremur áföngum um allt að 50%. Ég tel eðlilegt að þessi mál verði tekin til skoðunar og að sama skapi er eðlilegt að í framhaldi af þessu máli kanni menn það hvort ástæða sé til þess, sem ég er í sjálfu sér hlynntur, að auknum fjármunum verði varið til forvarna vegna áfengisneyslu. Ég vísa til þess sem sagt er um áfengisgjaldið í þeim texta sem fram kemur í greinargerðinni og tel ekki ástæðu til að lesa það allt upp hér þegar ég mæli fyrir málinu. Ég vil þó bæta því við sem hér hefur verið sagt og ítreka að þetta mál sem hér er flutt og þingmenn þriggja stjórnmálaflokka, alls 17 talsins flytja, getur í eðli sínu ekki talist mjög róttækt mál. Það má segja að í frumvarpinu felist ákveðin málamiðlun sjónarmiða sem uppi hafa verið á þessu sviði. Það eru til menn innan þings og úti í þjóðfélaginu sem hefðu talið eðlilegt í ljósi þeirra grunnsjónarmiða sem þeir reyna að berjast fyrir í stjórnmálum að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins yrði einfaldlega lögð niður eða einkavædd og að einkaaðilum yrði fengið það hlutverk að annast verslun með bjór, létt vín og sterkt vín að fullu.

Sú leið er ekki farin hér heldur er stigið minna skref. Það sem við leggjum til er að kaupmenn í smásöluverslun fái heimildir til að selja léttvín og bjór í búðum sínum. Ég vil leggja sérstaklega áherslu á það vegna þess að það hefur borið á því í umræðunni að frumvarpið feli í sér að þá verði einungis sterk vín eftir í Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, Vínbúðinni, eins og hún er kölluð í dag. Þetta er rangur skilningur á þessu máli.

Í þessu frumvarpi eru engin ákvæði sem mæla fyrir um að Áfengis- og tóbaksverslunin sitji uppi með sterku drykkina en einkaaðilar selji bjór og léttvín. Nái þetta frumvarp fram að ganga er ekkert sem bannar ÁTVR að halda áfram að selja þann bjór og það létta vín sem ÁTVR hefur gert til þessa. Frumvarpið mælir eingöngu fyrir um það að einkaaðilar, stórmarkaðir og ýmsar verslanir sem hér starfa fái ásamt ríkinu að selja bjór og léttvín í verslunum sínum. Það er mjög mikilvægt að þetta komi fram vegna þess að það hefur örlað á þeim misskilningi að tilgangur flutningsmanna þessa frumvarps sé annar og sá sem ég lýsti áðan. (Gripið fram í: Er það vín-REI?)

Ég vil líka benda á það, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, að við flutningsmenn þessa frumvarps teljum að í því felist sóknarfæri fyrir svokallaða smákaupmenn, kaupmanninn á horninu, þá sem reka litlar verslanir og hafa, svo ekki sé meira sagt, átt undir högg að sækja gagnvart stórkaupmönnum og sterkum viðskiptablokkum í viðskiptalífinu sem hafa sölsað undir sig stærri og stærri hluta markaðarins. Ég held að það sé ekki ofsögum sagt að þessir aðilar hafa barist í bökkum í íslenskri verslun á síðustu árum vegna þess að þeir hafa átt undir högg að sækja í samkeppni við hina stóru og sterku. Með því að heimila þessum aðilum að selja léttvín og bjór skyldi maður ætla að samkeppnisstaða þeirra verði styrkari og ég hef heyrt það í samtölum mínum við þá aðila sem standa í slíkum verslunarrekstri að þeir líti löngunaraugum til þessa frumvarps vegna þess að þeir telja að það muni styrkja starfsemi þeirra og verslun þannig að ég tel að það sé engin spurning að verði þetta frumvarp að lögum muni það styrkja rekstrargrundvöll kaupmannsins á horninu, manna sem standa í lítilli verslun eins og vestur í bæ í Melabúðinni. Og úr því að ég sé að einn þingmaður, ágætur Vesturbæingur, Ellert B. Schram, er að biðja um orðið þá væri það auðvitað fengur fyrir hann og aðra Vesturbæinga að geta keypt sér rauðvín með steikinni í Melabúðinni. Það sama má auðvitað segja um þær glæsilegu fiskbúðir sem hafa sprottið upp á hverju horni eins og Fiskisaga. Af hverju í ósköpunum er fólki á Íslandi ekki treyst fyrir því að geta keypt sér hvítvín með fiskinum sem það kaupir í þessum verslunum eða þá í ostabúðinni uppi á Skólavörðustíg? Ég man að þegar ég bjó í Belgíu og stundaði þar nám þá bjó ég við hliðina á ostabúð sem þar var, þangað gat fólk farið og keypt sér sinn ost og fengið sérfræðingana í þeirri búð til að velja gott rauðvín með góðum osti. Við Íslendingar höfum ekki haft tækifæri til að stunda slíka verslun fram til þessa og maður trúir því eiginlega ekki og skilur ekki hvers vegna löggjafinn hefur ekki heimilað íslenskum borgurum að gera þetta, á árinu 2007.

Ég tel, herra forseti, að við Íslendingar höfum verið afskaplega aftarlega á merinni þegar kemur að verslun með léttvín og bjór og ég tel að nú sé ástæða til að nú verði gripið til ákveðinna breytinga í því sambandi. Ég hef ekki miklar áhyggjur af því að neysla á þessum vörum muni aukast mjög verulega þrátt fyrir að aðgengið muni breytast. Ég hugsa að sú breyting sem þetta frumvarp mun kannski helst hafa í för með sér verði sú að á Íslandi verði til annars konar menning í tengslum við þessar vörur sem ég tel að sé kannski aðeins eftirsóknarverðari en sú drykkjumenning sem hefur verið viðhöfð á Íslandi og ekki gefið neitt sérstaklega góða raun. Þetta eru atriði sem ég taldi ástæðu til að kæmu fram í umræðunni.

Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar er þetta mál flutt óbreytt fimmta árið í röð. Ég og aðrir flutningsmenn þessa frumvarps sem koma úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingar og Framsóknarflokks vonumst til þess að umræður um frumvarpið verði málefnalegar og að þessu sinni fái þingheimur tækifæri til að greiða atkvæði um málið þegar það hefur verið afgreitt úr nefnd og segja skoðun sína á því hvort ástæða sé til að ráðast í þessar breytingar. Auðvitað vonar maður að í kjölfar alþingiskosninganna síðasta vor hafi skolað inn á fjörur Alþingis fleiri réttsýnum þingmönnum sem eru framfarasinnaðir og vilja sjá breytingar í þessum málum.