135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[15:41]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel mig vera nokkuð framsýna manneskju og vilja þjóðinni allt hið besta en ég tel að frjálshyggjan í þessu frumvarpi geti leitt til meiri ófagnaðar en góðs fyrir þjóðina. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji að áfengi út af fyrir sig sé eins og hver önnur neysluvara, hvort hann geri engan greinarmun á áfengi og matvöru eða annarri neysluvöru, hvort hann telji að betra aðgengi að bjór og léttvíni muni ekki auka drykkju hjá börnum og ungmennum og hvort hann telji að núverandi kerfi á sölu á tóbaki í matvöruverslunum sé æskilegt þar sem yngri unglingar starfa en hafa heimild til að afgreiða tóbak. Í þeirri manneklu sem er í verslunum í dag hafa sveitarfélögin gefið undanþágu til afgreiðslu til þess að verslanirnar hafi unglinga undir 18 ára aldri við afgreiðslu á kössunum og þar af leiðandi til að afgreiða tóbak og ég spyr hv. þingmann hvort hann telji ekki að það sama geti átt sér stað í smávöruversluninni hvað varðar áfengi, að það verði erfitt að manna stöður með eldra starfsfólki en 20 ára og hvort hann telji þá ekki að þeir sem eru yngri en tvítugir eigi í erfiðleikum með að neita jafnöldrum sínum eða þeim sem hafa ekki náð tilskildum aldri um afgreiðslu, hvort hann hafi engar áhyggjur af þessu.