135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[15:50]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er meira í þessu frumvarpi en ætla mætti miðað við framsöguræðu hv. flutningsmanns. Ég vil fyrst vekja athygli á því að gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að heimila sölu á áfengi í verslunum samkvæmt því sem fram kemur þar. Gangi það eftir verður uppi samkeppni milli hins opinbera og einkaaðila um sölu á áfengi. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hefur ásamt mörgum fleiri þingmönnum Sjálfstæðisflokksins talað fyrir því hér á Alþingi og víðar að það sé algerlega ómöguleg staða sem ekki eigi að líðast að ríkið sé í samkeppni við einkaaðila. Hv. þingmaður mun því sama daginn og það verður að veruleika sem hann óskar eftir koma fram með þá kröfu að ríkið hætti starfsemi vínbúðanna vegna þess að það sé ólíðandi að hið opinbera sé í samkeppni við einkaaðila.

Þetta er yfirvarp, það er falskt yfirskin í þessu frumvarpi, markmiðið er einfaldlega að koma allri sölunni út í verslanir til þess að kaupmenn hafi þann ávinning af sölu áfengis sem hið opinbera hefur í dag. Hið opinbera á hins vegar að sitja eftir með minni tekjur til að standa undir kostnaðinum af vandanum sem fylgir áfengisneyslu sem mun vaxa. Það verða minni tekjur, og auknum útgjöldum verður velt yfir á skattgreiðendur.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson og meðflutningsmenn eru að leggja til aukin útgjöld á skattgreiðendur og auknar tekjur til fárra þeirra sem munu eiga og reka þessar búðir sem mega selja vöruna. Það er markmið frumvarpsins, einkavæða ágóðann og ríkisvæða útgjöldin, virðulegi forseti.