135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[15:52]
Hlusta

Flm. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er þannig, því miður, enn þá hér á hinu háa Alþingi að sumir hv. þingmenn virðast, nánast sama hvaða mál er til umræðu, aldrei sjá annað en skrattann í hverju horni. Það á við um hv. þingmann sem hér talaði. Hann talaði um að hér væri um eitthvert yfirvarp að ræða og boðaði að ég mundi daginn sem þetta frumvarp yrði samþykkt leggja til að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins yrði einkavædd eða lögð niður. Það er ekki svo. Ég er hér bara ásamt 16 öðrum þingmönnum úr þremur stjórnmálaflokkum að reyna að berjast fyrir því að við Íslendingar tökum upp sömu verslunarhætti og flestar siðmenntaðar þjóðir í kringum okkur hafa gert.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að verði þetta frumvarp að lögum mun það leiða til samkeppni milli hins opinbera og einkaaðila. En, guð minn almáttugur, er það ekki betra fyrirkomulag en ríkiseinokunin sem nú gildir? Ég er a.m.k. þeirrar skoðunar þó svo að hv. þingmaður kunni hugsanlega að vera á öndverðum meiði, kannski með vísan til hans fyrri stjórnmálaskoðana á fyrri árum.