135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[15:55]
Hlusta

Flm. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja við hv. þm. Kristin H. Gunnarsson að hann ætti ekki að skammast í öðrum þingmönnum fyrir það orðalag sem þeir kjósa að temja sér í opinberri umræðu, maður sem talar hér um fullkomið ábyrgðarleysi og lýðskrum vegna þess að það eru hér 17 hv. þingmenn sem vilja auka verslunarfrelsið í landinu sem eðlilegt er. Í því felst ekkert ábyrgðarleysi og ekkert lýðskrum.

Fyrst að hv. þingmaður er að vísa í einhver gögn hlýt ég að kalla eftir því að hann tiltaki nánar við hvað hann á. Í andsvari sínu hér vísar hann almennt til gagna — en hvaða gagna? Mér þætti ágætt að fá upp á yfirborðið frá hv. þingmanni hvaða gögn hann á við þegar hann talar um að lækkun áfengisgjalda muni auka neyslu.

Ég vil hins vegar benda hv. þingmanni á að þrátt fyrir að talað sé um áfengisgjöld í greinargerð með þessu frumvarpi er ekki lagt til með því að áfengisgjöld verði lækkuð. Í greinargerð með frumvarpinu er því varpað fram að það sé ástæða til að skoða hvort við ættum, Íslendingar, með tíð og tíma að lækka áfengisgjöldin. Verði þetta frumvarp að lögum munu áfengisgjöldin ekkert lækka. Alveg eins og ég varpaði því fram í umræðunni þegar ég mælti fyrir frumvarpinu að það væri kannski ástæða til þess að taka umræðu um hvort ríkisvaldið ætti að leggja aukna fjármuni til forvarnaverkefna, en það kemur þessu frumvarpi ekkert við.

Ég vil að menn hafi þetta í huga þegar þeir ræða þetta mál, við erum ekki að leggja til lækkun á áfengisgjaldinu. Hins vegar bendum við á að það sé kannski ástæða til að gera það. Ef við lækkuðum áfengisgjaldið á Íslandi um helming yrðum við samt á toppnum í Evrópu með Svíum þegar kemur að innheimtu þessara gjalda.