135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[15:58]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hér er miklu tjaldað til. Það dugar ekki minna en að fá 17 alþingismenn úr þremur stjórnmálaflokkum til að bera þetta þingmál fram. Í greinargerð með frumvarpinu er vísað í sögu málsins. Þar kemur fram að það var borið fram á 130. löggjafarþingi, 131., 132. og 133. löggjafarþingi, en náði aldrei fram að ganga.

Þar er líka vísað til hetjulegrar baráttu Vilhjálms Egilssonar, núverandi framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, fyrrverandi framkvæmdastjóra Viðskiptaráðsins og fyrrverandi hv. þingmanns, sem um árabil reyndi að fá því framgengt hér á Alþingi að ÁTVR yrði lögð niður og farið að selja brennivín í matvörubúðum.

Segja má að það sé jafnan gott og gleðilegt þegar stjórnmálamönnum auðnast að finna hugsjónum sínum verðugan farveg. Það hafa þau væntanlega gert, flutningsmenn þessa frumvarps, háttvirtir þingmenn: Sigurður Kári Kristjánsson, Ágúst Ólafur Ágústsson, Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Illugi Gunnarsson, Árni Páll Árnason, Pétur H. Blöndal, Birkir J. Jónsson, Einar Már Sigurðarson, Ásta Möller, Ólöf Nordal, Jón Gunnarsson, Kristján Þór Júlíusson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Ármann Kr. Ólafsson, Ragnheiður Elín Árnadóttir og Arnbjörg Sveinsdóttir.

Og hver er hugsjónin? Hvert er hið verðuga baráttumál? Það er að koma áfengi inn í matvöruverslanir á Íslandi. Til þess er nú barist og til þess sameinast 17 alþingismenn á Alþingi um þetta frumvarp.

Háttvirtur fyrsti flutningsmaður Sigurður Kári Kristjánsson sagði að þetta væri ekki mjög róttækt mál. Menn væru ekki að stíga hin stóru skref með þessu máli sem slíku. (Gripið fram í: Þetta er málamiðlun.) Þetta væri málamiðlun við þá stefnu sem hann hefur áður borið fram, ásamt núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra Guðlaugi Þór Þórðarsyni, að leggja ÁTVR niður og koma allri vínsölu í almenna vörudreifingu. Það er takmarkið.

Varðandi róttæknina og hömlurnar kom einnig fram í hans máli að sett yrðu ýmis skilyrði. Afgreiðslufólkið átti ekki að vera undir 20 ára aldri. Búðirnar áttu að vera háðar leyfisveitingu í sveitarfélögunum en þó þannig að þær yrðu aldrei opnar eftir klukkan 20.

Hverjir eru líklegastir til að fá þessa verslun á sína hendi? Kaupmaðurinn á horninu, sagði hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson. Að sjálfsögðu ekki. Að sjálfsögðu munu gilda sömu lögmál í þessari verslun og annarri verslun á Íslandi. Auðvitað verða það Bónus og Hagkaup sem girða af tiltekin horn í verslunum sínum, loka þeim klukkan 20, og sjá til þess að einvörðungu fólk yfir 20 ára aldri afgreiði þar. Það sem er í reynd verið að stinga upp á og leggja til er að færa einokun sem hefur verið hjá hinu opinbera yfir til þessara aðila. Einokun á vegum Bónuss, einokun á vegum Hagkaupa, það er markmiðið. Það er skrefið sem á að stíga.

Þegar frumvarpshöfundar segja að erfitt sé að finna nokkur rök fyrir starfrækslu ÁTVR en auðvelt að finna hin rökin, að þá spyr ég: Í hvaða heimi hefur þetta fólk lifað? Okkur getur greint á um hvað sé heppilegt fyrirkomulag en báðir aðilar hafa að sjálfsögðu sín rök á takteinum. Það höfum við líka sem viljum áfram starfrækslu ÁTVR. Er það vegna þess að við hötumst út í einkarekstur og sjáum honum allt til foráttu? Nei. Það er kannski vegna þess að við teljum að einkareksturinn verði duglegri að koma brennivíni ofan í þjóðina. Þetta er nefnilega háð líka forvarnastefnu sem hér hefur verið rekin.

Hljótum við ekki að taka mark á skýrslum frá Lýðheilsustofnun, frá þeim sem sinna heilsufarsmálum og forvörnum? Hljótum við ekki að gera það? Við þessa 1. umr. láta menn einvörðungu í ljósi megináherslur. Við síðari umræðu, ef þetta mál kemur út úr þingnefndum, mun það að sjálfsögðu kalla á mjög ítarlega umræðu þar sem farið verður í gögnin, skjöl um rannsóknir sem gerðar hafa verið á þessu sviði.

Síðan eru það byggðasjónarmiðin. Það má ekki mismuna. Það má ekki mismuna fólki. En gæti nú verið að það fyrirkomulag sem við búum við nú sé hagstætt fyrir hinar dreifðu byggðir? Getur það verið? Þekkja menn þær reglur sem ÁTVR hefur komið sér upp um úrval á sínum sölustöðum? Það er hvergi undir 100 tegundum. Hvergi. En hvernig halda menn að það verði þegar þessar kvaðir eru numdar brott og við erum komin út í dreifðar byggðir með litlum verslunum, halda menn að þar verði 100 áfengistegundir á boðstólum? Nei, þar verður náttúrulega bara Johnnie Walker, vodka og tvær, þrjár léttvínstegundir, ein koníak og líkjör. Þetta er veruleikinn.

Þegar menn tala um byggðasjónarmið og hagsmuni neytenda þá kalla ég eftir frekari rökum, að háttvirtir flutningsmenn komi með sannfærandi röksemdafærslu. Vegna þess að þetta er ekki fyrir neytandann. Þetta er ekki fyrir neytandann. Nánast hvergi á byggðu bóli er boðið upp á eins mikla fjölbreytni í áfengissölu og hér á landi. Það staðhæfi ég. Þegar segir hér í greinargerð með frumvarpinu að þetta sé óhagkvæmur rekstur þá held ég ekki að svo sé. Eða hafa menn kynnt sér innkaupsverð hjá ÁTVR annars vegar og tiltölulega smáum kaupendum á erlendri grundu? Sá aðili í heiminum sem fékk áfengi á hagstæðustum prís á sínum tíma og fær kannski enn er sænska einokunarverslunin. Hvers vegna? Vegna þess að hún kaupir áfengi í mestu magni. Hún nær mjög hagstæðum kjörum. Það gerum við líka á Íslandi vegna stærðarinnar. Þetta eru staðreyndir. Hafi menn efasemdir um það eða telja mig fara með rangt mál þá óska ég eftir að mér verði sýnt fram á það, að reidd verði fram (Gripið fram í.) einhver gögn. Ég hef margoft gert það og tekið þátt í umræðu hér á Alþingi. Ég hef skrifað fjöldann allan af blaðagreinum um nákvæmlega þetta efni og m.a. um áfengisverðið.

Þannig þegar allt er tekið saman þá eru menn að draga úr forvarnagildinu. Menn auka á óhagkvæmni og draga úr þeim valkostum sem viðskiptavinurinn hefur. Þá spyr ég: Hagsmunum hverra er þjónað? Að sjálfsögðu kaupmanna sem gjarnan vilja komast yfir þessa verslun. Út á það gengur þessi slagur. Þeirra erinda ganga þessir sautjánmenningar. Ég held því fram. Þeir ganga erinda kaupmanna sem vilja komast yfir þessa verslun.

Varðandi þessa rómantík, að menn geti keypt sér hvítvínsflösku í fiskbúðinni og hjá honum Guðmundi í Melabúðinni o.s.frv. og menn gangi nokkur skref til viðbótar og koma í mjög góða verslun með góðu úrvali þá hef ég verið því fylgjandi sjálfur að þar sem við seljum áfengi sé gott úrval en það sé ekki ágeng sala. Við þurfum ekki að virkja alla þá kosti sem hinn frjálsi markaður með öllum sínum mekanisma býr yfir í þágu áfengissölunnar. Þetta er spurningin um að finna meðalhófið í þessu.

Mér hefur í seinni tíð fundist ÁTVR ganga allt of langt í auglýsingamennsku. Ég hef fundið að því opinberlega og nefnt það við forsvarsmenn ÁTVR. Ég hef einnig furðað mig á þeim tónum sem hafa borist frá stjórn þessarar stofnunar, sem ég hef nú stundum grunaða um að vilja henni endilega ekki mjög langra lífdaga. Mér hefur oft fundist það viðkvæðið hjá þeim sem þar sitja í stjórn og stýra för. En mér finnst stjórnin ekki hafa haldið nægilega vel á málum, fyrir minn smekk. Ég hef líka verið talsmaður þess að aðgengi að áfengi sé tryggt alls staðar á landinu í áfengisútsölum. Ég hef flutt þingmál þess efnis. Þetta hefur lagast í seinni tíð. En ég hef flutt þingmál þess efnis.

Minn málflutningur og nálgun okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði við þetta mál er í reynd ekki flokkslegs eðlis og einstaklingar taka að sjálfsögðu afstöðu hver fyrir sig. Þó hefur það nú verið þannig að við höfum verið á einum báti í þessu. Mín afstaða hefur verið sú að tryggja eigi aðgengið. Það eigi að tryggja fjölbreytni en forðast ágengni í sölumennskunni.

Að lokum þetta með róttæknina, að þetta sé ekki ýkja róttækt frumvarp. Þetta frumvarp er óskaplega íhaldssamt og óskaplega afturhaldssamt. Það er óskaplega lítið í takt við komandi tíð. Ég held að það muni gerast, sem er smám saman að gerast, að meiri hömlur verði settar á auglýsingar á hvers kyns vímuefnum og skaðlegum efnum, tóbaki og einnig áfengi. Við þekkjum hvað er að gerast á veitingastöðunum með tóbakið. Þar er verið að þrengja að og ég held að framtíðin sé sú að samfélagið reisi ákveðnar skorður hvað þetta snertir.

Mér finnst að þeir sem eru fylgjandi frelsi í verslunarháttum geti verið fullsæmdir af því að setja sérstakan ramma um sölu og dreifingu á tóbaki og áfengi. Vert væri að koma inn á mörg önnur atriði við þessa umræðu en, hæstv. forseti, ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri að sinni.