135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[16:14]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hafi ég hagað orðum mínum óvarlega og verið særandi í ummælum, þá biðst ég afsökunar á því. Það var ekki meiningin. Mér sjálfum finnst ekki endilega slæmt að ganga erinda tiltekinna hagsmuna, verkafólks, sjúklinga eða annarra hópa í málum sem hér koma til umræðu. Það er þetta sem ég á við.

Ég spyr: Hverra hagsmunum þjónar þetta frumvarp? Hagsmunum hverra þjónar það? Ég tel að það þjóni hagsmunum verslunarreksturs sem lengi hefur ásælst brennivínssöluna. Ég vísa þar til hetjulegrar framgöngu Vilhjálms Egilssonar og fleiri í þessum þingsal um langt árabil. En Verslunarráðið, eins og við þekkjum, sem nú heitir Viðskiptaráð, hefur haft þetta á oddinum í áratugi, að leggja niður ÁTVR og koma áfengissölunni inn í almennar matvöruverslanir. Þar með hefur Verslunarráðið gengið erinda félagsmanna sinna.

Varðandi forvarnirnar þá skírskota ég einfaldlega til skýrslna sem fram hafa komið, m.a. frá Lýðheilsustöð, ef ég man rétt, frá alþjóðastofnunum á vegum Sameinuðu þjóðanna og frá læknasamtökum sem halda þessu fram. Þar er vísað í rannsóknir og skoðað samhengið á milli dreifingarmátans annars vegar og neyslunnar hins vegar. Þetta hefur til þessa verið einn af grunnpóstunum í stefnu okkar Íslendinga á þessu sviði.