135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[16:16]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ljóst að minn málskilningur og málskilningur hv. þm. Ögmundar Jónassonar, á því að ganga erinda einhverra, er ekki alveg á sömu bókina lærður, það er nokkuð ljóst. Sem flutningsmaður frumvarpsins segi ég: Ég er að vinna að þessu fyrir neytendur. Ég tel að þetta sé til hagsbóta fyrir neytendur og þess vegna er þetta frumvarp lagt fram.

Ég hef enga trú á því sem hv. þm. Ögmundur Jónasson segir, að forvarnastefna og forvarnagildi fari forgörðum þó að áfengi sé selt í matvöruverslunum, léttvín og bjór. Ég held að almennt þurfi, í þessu landi og ef til vill í öðrum löndum, að efla forvarnastefnu og forvarnastarf og hafa það með skilvirkari hætti inni á heimilum og inni í skólum. Það hvar áfengi er selt breytir engu um það hvernig forvarnastefnunni er fram haldið og hvernig hún er unnin. Það er tvennt ólíkt. Við getum rekið forvarnastefnu í skólum og á heimilum og staðið okkur í því þó að við getum labbað í verslunina á horninu og keypt hvítvín eða rauðvín. En menn geta slegið um sig með þeirri fullyrðingu að með því að leyfa sölu áfengis í öðrum verslunum en Áfengisverslun ríkisins sé allt farið fjandans til. Sumir hafa enga trú á öðrum og þurfa ætíð að hafa forsjárhyggju í fyrirrúmi, segjandi fólki hvað það á að gera og hvernig það á að hegða sér.