135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[16:18]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvernig skyldi standa á því að það er svo þægilegt að hafa hvítvínið í fiskbúðinni og rauðvínið hjá kjötinu í Bónus eða Hagkaup? Það er auðveldara að nálgast það og það er líklegra að maður grípi eina með sér. Það er þetta sem menn hafa verið að skoða í athugunum sem gerðar hafa verið af læknasamtökum og heilbrigðisyfirvöldum, það er samhengi á milli dreifingarmáta, ágengni markaðarins og auglýsinga og neyslu. Það er einfaldlega það sem ég er að segja. En hv. þingmaður segist vera að gera þetta fyrst og fremst fyrir neytendur. Og þá hvernig? Með það fyrir augum að lækka verðlag? Er líklegt að það gerist? Hátt verð á áfengi ræðst ekki af því sem gerist hjá ÁTVR fyrst og fremst. Það eru gjöldin sem lögð eru á áfengið, sem samkvæmt greinargerð með frumvarpinu eru himinhá borið saman við það sem gerist annars staðar, sem valda því. Þau eru skýringin á hinu háa verði, ekki dreifingarmátinn.

Er það þá fjölbreytni sem hv. þingmaður er að bæta úr? Það held ég ekki. Ég held að fjölbreytnin sé meiri við það fyrirkomulag sem við búum við núna en hún yrði eftir að búið væri að koma þessu öllu inn í kaupfélögin víðs vegar um landið og inn í Bónusverslanirnar og Hagkaupsverslanirnar, stóru keðjurnar sem mundu ná einokun yfir þessari verslun.