135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[16:26]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér fengum við ágæta innsýn í hvernig hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson vill nálgast málefnalega umræðu. Ef ég hefði fengið einhverju ráðið í landinu telur hann að aldrei hefðu orðið neinar framfarir á neinu sviði. Ég var sannast sagna að vonast til þess að 1. flutningsmaður þessa máls, þegar hann kvaddi sér hljóðs í andsvari, tæki einhverja efnisþætti til umfjöllunar, um verðlagið, um fjölbreytni í vörutegundum, um lýðheilsusjónarmið. Ekki orð um neinn þessara þátta heldur bara þessi almenni skætingur um að þeir sem leyfi sér að vera á móti flutningsmönnum fari villir vegar, séu ómálefnalegir og þar fram eftir götunum.

Staðreyndin er sú að mér finnst þetta grafalvarlegt mál sem hér er á ferðinni. Ef við ákveðum að stíga þetta skref held ég að mjög erfitt verði að snúa til baka. Ég kalla eftir því að flutningsmenn reiði fram einhverjar röksemdir og reyni að hrekja það sem við gagnrýnendur frumvarpsins höfum fundið því til foráttu.