135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[16:43]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég fékk ekki svar við spurningu minni. Ég get verið sammála hv. þingmanni um að útsölustaðir munu verða fleiri ef lagafrumvarpið verður að lögum. Staðirnir verða fleiri en þeir verða einungis með léttvín og bjór. Færri staðir munu selja sterku drykkina. Þeim mun fækka á landsbyggðinni. Það er augljóst mál.

Ég get tekið undir með hv. þingmanni að það sé jákvætt fyrir ferðaþjónustuna að útsölustöðum fjölgi. En það hlýtur að vera neikvætt að fækka stöðum sem selja sterka drykki. Hvað með þá ferðaþjónustuaðila og þá aðila sem sækja okkur heim og hvað með Íslendinga sem ferðast innan lands? Ef þeir eru úti á landi þurfa þeir að fara í tvær búðir til að kaupa þessa drykki, fyrst til að kaupa bjórinn og létta vínið en verða svo að keyra 50 kílómetra til að komast í verslun þar sem selt er koníak. Ég undrast að menn skuli ekki hafa tekið þennan vinkil í þessa umræðu.

Hv. þingmaður talar mikið um að við eigum að ganga í Evrópusambandið. Eigum við þá að sniðganga þessa reglu og fara ekki alla leið í Evrópusambandið, eða þá bara í skrefum? Ég vil fá svör við því, hv. þingmaður, hvers vegna við göngum ekki alla leið. Er það eitthvað slæmt? Er ekki betra að stíga skrefið í einu lagi alla leið eins og er í mörgum nágrannalöndum okkar?

Hv. þingmaður nefndi svo og svo marga Íslendinga sem fara í verslanir í viku hverri. Hvað skyldu það vera margir Íslendingar sem fara á ári hverju í verslanir þar sem allt er á boðstólum í Evrópu? Á Spáni, í Danmörku, í Þýskalandi o.s.frv. Ég vil fá svolitla rökræðu um þetta.