135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[17:50]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég var ekki að segja að ég vildi áfengisbann. Ég sagði að ég mundi ekki harma það þótt áfengi yrði ekki selt hérna. Ég held því fram að aukið framboð af alkóhóli þýði aukna neyslu. Það hafa margar rannsóknir sýnt. Ef við förum að setja alkóhól í búðir mun það valda því að yngra fólk, krakkar fái meiri aðgang að því en nú er. Það er skoðun mín og trú.

Ég tek heils hugar undir að það er allt of mikil drykkja hérna. Ástandið sem hv. þm. Pétur Blöndal vísaði til er náttúrlega alvarlegt og endurspeglast m.a. líka í fíkniefnaneyslunni. Við sjáum t.d. að fangelsi landsins eru full og við heyrum daglega eða vikulega fréttir af hörmulegum verkum þar sem menn vinna gegn meðborgurum sínum og brjóta önnur lög og í langflestum tilvikum er það vegna þess að alkóhól eða vímuefni eru á ferðinni. Því miður er það bara staðreynd.

Mér finnst við hafa margt þarfara að gera en að eyða tíma vorum í að koma með svona frumvörp í þingið. En það er bara mín skoðun. Ég er ekki að segja að banna eigi að menn leggi fram slík frumvörp. Ég er alls ekki að tala um það þannig. Menn mega ekki misskilja mál mitt. Ég legg áherslu á mínar skoðanir og sannfæringu í þessu máli.