135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[17:55]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við fjöllum um frumvarp til laga, endurflutt frumvarp sem oft hefur verið lagt fyrir þingið á undanförnum árum. Í frumvarpinu er verið að rýmka heimildir varðandi sölu á léttari vínum og bjór. Þegar ég heyrði af því að flytja ætti þetta mál aftur hafði ég á orði að ég ætlaði að vona að það yrði þá eins og á undanförnum árum að það yrði flutt á seinna þingi ársins þannig að ekki þyrfti að koma til mikillar umræðu um það. Nú er það komið fram sem eitt af fyrstu málunum og mér finnst verst að þetta mál skuli sífellt koma inn sem viðskiptamál fyrst og fremst.

Ég hef velt því fyrir mér á mörgum undanförnum árum hvort þetta mál sé flutt með velferð neytenda sérstaklega í huga, hvort þetta mál sé flutt til þess að auka vellíðan og reyna að auka gæði lífs í landinu, hvort það að tryggja aðgengi fólks að rauðvíni og öðru léttvíni sé til þess að bæta heilsufarið — það hafa svo sem verið færð rök fyrir því að eitt rauðvínsglas á dag geti verið heilsusamlegt. Er þetta flutt sem jafnréttismál, eins og stundum má skilja, að það sé verið að auka aðgengi landsbyggðarfólks að víninu? Ég held að ekkert af þessum rökum ráði því að þetta mál er flutt ítrekað hér í þinginu.

Það kom raunar fram í svari frá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni, hann sagði þetta grímulaust: Við viljum frjálsa verslun. Þetta snýst um prinsipp varðandi verslun. Mér finnst það röng nálgun. Þó að ég ætli ekki að gera víninu svo hátt undir höfði að tala um það með einhverjum sérstökum heilagleika þá finnst mér það röng nálgun að það eitt eigi að ráða flutningi slíks máls. Í sambandi við mál af þessu tagi, sem mörg hver hafa farið í gegn, hafa menn oft notað orðin frelsi og samkeppni sem rökstuðning. Mér finnst ekki rétt að nota hugtök eins og réttindi og réttvísi í sambandi við þetta.

Ástæðan fyrir því að ég set spurningarmerki við frumvarpið er sú að mér finnst að við hefðum átt að taka þetta mál í miklu víðara samhengi og fjalla um það sem stundum er kölluð áfengismenning og þau áfengislög og það áfengisumhverfi sem við búum við. Menn vitna stundum til útlanda og tala um að hlutirnir séu með einum eða öðrum hætti þar, miklu betri þar en hér. En í slíkum samanburði tala menn oft ekki nema hálfan sannleika. Þegar ég stundaði nám í Danmörku um fimm ára skeið ræddi ég þessa hluti oft við danska félaga mína — við þekktum það að Íslendingar áttu til að detta ærlega í það og skandalísera á fylleríum. En ég hafði séð að Danir duttu jafnoft í það og Íslendingar og drukku jafnilla en þess á milli drukku þeir hóflega alla daga vikunnar.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir nefndi áðan að verið væri að fjalla um áfengismál í heilsufarslegu samhengi í öllum heiminum í dag. Það er verið að grípa til aðgerða á ótal mörgum stöðum til að sporna við áfengisneyslu. Það er verið að setja stífar reglur um notkun áfengis á íþróttavöllum, það er verið að reyna að banna áfengisneyslu, það er verið að loka börum klukkutíma fyrir leik eða jafnvel tveimur tímum fyrir leik í heilu hverfunum í London. Sú hegðun sem hér var nefnd, og hefur oft verið tengd við helgarfyllerí hjá okkur og annað, þekkist víðar í heiminum. Við heyrum af því að jafnréttið í London sé að breytast á þann veg að neysla unglingsstúlkna hafi aukist stórlega. Þar leita menn ótal ráða til að stíga skrefið til baka.

Ekki eru nema fjögur eða fimm ár síðan að á öllum strætóstöðvum í Danmörku voru auglýsingar með fjölskyldumyndum. Á myndunum stóð: Ætlarðu að fara á barinn á föstudegi og taka tímann frá börnunum þínum? Á sama tíma og þetta er að gerast annars staðar er af einhverjum viðskiptalegum frelsisástæðum verið að stíga í aðra átt hér og það án þess að spyrja: Hvar viljum við lenda, að hverju viljum við stefna? Það hefði átt að vera hluti af umræðunni í þessu samhengi. Hvað er verið að gera í heiminum í kringum okkur? Hvernig viljum við nálgast þetta viðfangsefni? Hvaða niðurstöðu viljum við fá?

Það getur kostað ýmsar breytingar, það er full ástæða til að ræða þessa hluti í því samhengi. Það þarf að ræða aldurinn í sambandi við áfengið, það þarf að ræða aðgengið almennt. Þegar menn eru svo að bera Ísland saman við önnur lönd og segja að áfengisvandinn þar sé minni — oft var sagt að þar væru færri skráðir með áfengisvanda. Kannski er það vegna þess að talningin er býsna ólík. Það sem veldur okkur áhyggjum og það sem veldur vandræðum hjá okkur er alls ekki skilgreint sem áfengisvandi í mörgum öðrum löndum, en það er það í reyndinni vegna þess að það kemur inn sem heilsufarsvandamál þó að það hafi ekki verið skilgreint í einhverjum mælingartölum eins og þeim sem við fáum frá SÁÁ.

Ég hef ekki litið svo á að flutningsmönnum frumvarpsins sé sama um hvort neysla eykst. Ég hef ekki litið svo á að þeir skilji ekki afleiðingarnar eða vilji auka á áfengisvandann. Ég er ekki með neinar slíkar hugmyndir. Ég held að frumvarpið sé sett fram í góðum tilgangi en því miður fyrst og fremst út frá viðskiptalegum sjónarmiðum. Það er það sem ég tel vera rangt í tillögunni.

Ýmsar breytingar færast smátt og smátt yfir landið okkar, stundum fyrr og stundum seinna. Það er kannski ekki spurning um það hvort vín fer í almennar verslanir heldur hvenær og þá hvernig. Það getur vel verið að við getum ekki spornað við þessari þróun. En af því að við höfum tíma og af því að við höfum getað séð hvað aðrir hafa prófað á undanförnum árum eigum við að gefa okkur tíma til að setja okkur markmið. Með hvaða hætti viljum við helst stýra málum? Við eigum ekki að láta viðskiptalífið eitt og sér eða einhverjar hugmyndir um frelsi beina okkur inn í einhvern ákveðinn farveg sem við höfum enga stjórn á að öðru leyti.

Þegar við ræðum hluti eins og t.d. drykkju unglinga í miðbænum eða útivistartíma eða annað slíkt held ég að menn einfaldi það mjög mikið að halda að engu máli skipti hvernig aðgengið er að víni, það nái allir í það. Það sem skiptir mestu máli er hins vegar viðhorf foreldra. Það er afar merkilegt að ræða í skólum við 15 til 16 ára gömul börn og foreldra þeirra. Ef maður ræðir við þau um áfengisneyslu barnanna fara þau alltaf að tala um fíkniefni, þau óttast fíkniefni. Þau forðast að ræða áfengismál einfaldlega vegna þess að þau eru sjálf neytendur og finnst erfitt að taka það upp, þau nota áfengi og þeim finnst erfitt að tala um þann þátt sérstaklega.

Þetta hefur að vísu verið að breytast. Foreldrasamtök hafa sameiginlega ásamt skólum unnið að því að breyta viðhorfum, hafa unnið mjög gott starf. Ég vil meira að segja fullyrða að þrátt fyrir allt hafi tekist að færa upphaf vínneyslu aðeins ofar í skólakerfinu, okkur hefur tekist að minnka áfengisneyslu mjög í grunnskólum. Því miður er það enn þá löggilt viðhorf að maður megi byrja að drekka brennivín þegar maður byrjar í framhaldsskóla. Menn hafa meira að segja haldið hátíðir sem ganga út á að það sé ákveðin manndómsvígsla að drekka og þegar farið er á busaball eigi maður að drekka brennivín. Við þurfum að vinna með þessi viðhorf og hin nýja ríkisstjórn hefur sett sér það markmið að vinna með sheilbrigðismál, forvarnastörf og vímuvarnir. Ég held að við ættum að setja þetta frumvarp inn í þá umræðu, taka það fyrir í heilbrigðisnefnd og taka það fyrir í félagsmálanefnd. Við eigum að nálgast þessa hluti út frá spurningunni: Hvert viljum við stefna? Ef það verður niðurstaðan að skynsamlegasta leiðin til þess að ná betri árangri varðandi áfengisneyslu og vímuefnanotkun sé sú að auka aðgengi með því að selja vín í matvöruverslunum þá skulum við gera það. Ég hef allar efasemdir um það og tel að það sé ekki mikilvægasta skrefið til þess að ná árangri í þessum málum.

Það er hægt að tína til fjöldamörg atriði í sambandi við þetta en ég ætla ekki að eyða miklum tíma í það. Ég ætla að vona að við fáum tækifæri til að fjalla um þetta í nefndum og ég vona að málið verði m.a. tekið fyrir í félagsmálanefnd, eins og áður sagði. Ég vil ítreka það sem ég hef verið að segja: Við skulum ekki falla í þá gryfju að nálgast þessa hluti eingöngu út frá viðskiptalegum forsendum, óháð þeim afleiðingum sem það hefur á alla okkar þjónustu og félagsmálastarfsemi í landinu heldur skulum við nálgast þetta sem hluta af heild. Hvaða mynd viljum við sjá?

Ég kaupi ekki þau rök að ekki sé hægt að borða osta eða borða fisk öðruvísi en að hafa vín með og ekki sé hægt að borða kjöt án rauðvíns, að það sé hluti af matarmenningu að nota einhverja ákveðna drykki með því. Það er hægt að hafa skoðun á því en ég hef komist af án þess og er mikill matmaður og nýt þess vel að borða mikið og vel. Það er verið að búa til ákveðnar myndir sem passa ákveðnum framleiðendum sem vilja koma þeim boðskap til skila að vellíðunin felist í rauðvíni á borðinu, nú eða bjór. Ég ræddi þetta við 10. bekkinga fyrir nokkrum árum, þau höfðu ekki áttað sig á því að í sjálfu sér væri það valkostur að sleppa því að neyta alkóhóls. Þau höfðu ekkert verið kynnt fyrir þeim möguleika, það er búið að gera áfengi að svo sjálfsagðri neysluvöru að það er ekki spurning hvort heldur hvenær þú ætlar að byrja.

Ég óska sem sagt eftir því að þetta mál verði tekið fyrir í stærra samhengi, að við skoðum það í tengslum við stórhuga áform um forvarnastörf í heilsugæslu, áform um bættar vímuvarnir í landinu. Ef frumvarpið passar inn í þau áform ríkisstjórnarinnar skulum við flytja það þegar það er komið í ljós.