135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[18:12]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sé ekki annað en að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins haldi víni að fólki með því að taka þær ákvarðanir sem þeir gera, gera búðirnar meira aðlaðandi, með því að vera með auglýsingablöð, með því að dreifa auglýsingablöðum í verslunum sínum. Þeir eru líka með upplýsingar um vín á netinu ef þú ferð inn á atvr.is. Ég sé ekki mikinn mun á þessu.

Síðan er náttúrlega alltaf þessi hræðsluáróður í gangi varðandi áfengi og það var m.a. 1989 þegar bjórinn var lögleiddur hér landi, manni finnst það eiginlega með ólíkindum að það skuli vera svo stutt síðan. Þá sögðu úrtölumennirnir úr þessum stól: Það mun auka áfengisneysluna, bjórinn mun flæða yfir allt, ungmennin munu liggja hér drukkin og hvaðeina. Hvað gerðist? (Gripið fram í: Þetta hefur gerst.) Árið 1989 jókst heildaráfengismagn í neyslu, tveim árum eftir, 1990 og 1991, minnkaði heildarneyslan. Hver er ástæðan? Jú, ástæðan var sú að það var kreppa í þjóðfélaginu. Efnahagsástand þjóðar hefur miklu meiri áhrif á áfengisneyslu en aðrir þættir eins og aðgengi.