135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[18:13]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér þykir vænt um að hv. þm. Ásta Möller skuli staðfesta að það eru einmitt efnahagur og verð sem hafa töluverð áhrif á neysluna. Aftur á móti vil ég snúa þessu við varðandi hræðsluáróðurinn og bjórinn. Hefðum við verið betur sett ef við hefðum innleitt bjórinn 10 til 15 árum fyrr, af því að þetta snerist um það? Mér finnst það vera miklu meira heillandi spurning að velta því fyrir sér.

Ég hef nefnilega verið talsmaður þess — eins og ég var að ýja að þegar ég talaði um að þetta væri kannski þróun sem bærist hingað — að fara sér hægt, að hugsa hvert skref. Þeim mun seinna sem við förum með vín út í matvörubúðir þeim mun betra, það er röksemdafærsla mín. Það er ýmislegt sem berst til okkar, við þurfum ekki að hlaupa fram fyrir og þykjast vera að elta eitthvað því að þá getum við orðið að athlægi.

Ég ætla að segja ykkur eina sögu af því að ég hef smátíma. Ég tók þátt í því á Akranesi fyrir nokkrum árum að taka á móti einum frægasta knattspyrnumanni heims, Pele. Það var hádegisverðarboð á Akranesi og af því að maður á að taka vel á móti gestum var boðið upp á vín með matnum. Í þessa veislu var boðið þeim sem voru heiðursgestir knattspyrnufélagsins, Þórði heitnum Þórðarsyni og Ríkharði Jónssyni, sem er faðir eins af flutningsmönnum frumvarpsins. Ég hef aldrei orðið að eins miklu athlægi á ævinni eins og þegar við buðum vín með matnum í hádeginu þennan dag, flestir komu auðvitað á bíl og enginn af heiðursgestunum drakk vín.

Við erum stundum að elta einhverja tísku en þorum ekki að taka afstöðu sjálf. Skoðum hvað við höfum og hvað við viljum fá og vinnum út frá því.