135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[18:19]
Hlusta

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég lýsi stuðningi við þetta mál sem ég er reyndar einn af flutningsmönnum að. Ég ætla ekki að lengja umræðuna mjög mikið hér í dag vegna þess að ég tel að bæði framsögumaður hafi farið vel yfir efnisatriði málsins í framsöguræðu sinni og að í umræðunum hafi komið fram mörg af þeim atriðum sem skipta máli.

Mig langar bara að segja það sem mína skoðun að þetta er mjög augljóst mál. Sala á áfengi á ekki að vera á hendi ríkisins þar sem ég tel að aðrir í samfélaginu séu mun betur fallnir til kaupmennsku en opinberir starfsmenn með allri virðingu fyrir því góða fólki. Ég tel þetta fyllilega tímabært og ég tel þetta raunar vera eitt af þessum málum sem við komum í framtíðinni til með að hrista höfuðið yfir eins og við gerðum varðandi sjónvarpslausa fimmtudaga og bannaðan bjór. Ég held að nafna mín, hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, hafi haft lög að mæla þegar hún benti á það í andsvari fyrr í dag að þetta mál snýst fyrst og síðast um að treysta fólki. Ég treysti fólki til að versla með áfengi, hvort sem er að selja það eða kaupa. Hlutverk ríkisins og þar með löggjafans í þessu máli er hins vegar það að setja reglurnar um framkvæmdaatriðin enda er skýrt tekið fram í þessu frumvarpi hvernig framkvæmdin í þessu máli á að vera og sveitarfélögum í landinu treyst til að setja reglur um það. Einnig tel ég að við þurfum að hafa viðeigandi viðurlög við brotum ef reglurnar eru brotnar til þess að eftir þeim verði farið.

Þetta mál, eins og skýrt er tekið fram í greinargerð með frumvarpinu, breytir í engu stefnu stjórnvalda í áfengismálum nema það er verið að fjalla um hver stendur fyrir aftan búðarborðið. Áfengisstefnan verður í alla staði óbreytt að frátöldu þessu atriði, forvarnastarf verður áfram afar mikilvægt og ef eitthvað er væri ástæða til að efla það. Ég hvet okkur til að taka þá umræðu í þessum sal síðar en það er hins vegar önnur umræða, það er ekki það sem þetta mál fjallar um. Hér er verið að tala um, eins og margítrekað hefur komið fram, frjálsa verslun.

Það er annað sem hefur ekki verið rætt en er kannski ástæða til að nefna, atriði eins og ölvunarakstur. Það er meinsemd í þessu þjóðfélagi eins og annars staðar. Þetta frumvarp er hvorki til þess fallið að auka hann né draga úr. Þess vegna held ég að við ættum að taka þá umræðu og ég er a.m.k. þeirrar skoðunar að við ættum ef eitthvað er að minnka það hámark sem hér er leyfilegt að hafa í blóðinu til þess einmitt að koma í veg fyrir þetta. Með slíkum aðgerðum getum við öll hjálpast að við að vinna bug á þeim vandkvæðum sem fylgja áfengisneyslu eins og hefur komið hérna fram í dag. Það er ekkert hagsmunamál flutningsmanna þessa frumvarps að auka það böl, eins og mætti taka til orða.

Framsögumaður, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, nefndi hér áðan að hann vonaðist til að vínmenning hérlendis batnaði við þessa breytingu og ég tek undir það með honum. Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson benti líka á að stefnan hér hefur hingað til ekkert virkað í þessum efnum. Það er líka hægt að benda á það að í löndum sunnar í álfunni þar sem reglur um sölu áfengis eru mun rýmri en þær gerast hér virðist meðhöndlun áfengis vera með öðrum og betri hætti en hér er.

Ég vil, ef ég má, með leyfi forseta vísa í bækling sem þingmönnum barst frá Lýðheilsustöð sem heitir Áfengi – engin venjuleg neysluvara. Á bls. 5 segir, með leyfi forseta:

„Ungt fólk í Suður-Evrópu verður ekki ölvað nema í tíunda hvert skipti sem áfengis er neytt en í Norður-Evrópu verður það ölvað í flestum tilvikum þegar áfengis er neytt.“

Það er greinilegt að okkar stranga áfengisstefna hefur ekki allt að segja.

Að lokum, frú forseti, vil ég hvetja þingið til að veita þessu máli stuðning og ég hvet þingmenn til að leyfa þessu máli að fara hinn eðlilega þinglega farveg. Ég held að það sé ástæða til að treysta þingmönnum til að greiða atkvæði um þetta mál og skiptast á skoðunum. Það eru skiptar skoðanir um málið eins og hér hefur komið fram og ég hvet okkur til að klára málið og greiða um það atkvæði. Eins og framsögumaður sagði, ef málið fellur í atkvæðagreiðslu nær það ekki lengra en treystum okkur öllum a.m.k. til að fá að greiða um það atkvæði.