135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[18:25]
Hlusta

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur komið fram hjá hv. síðasta þingmanni sem talaði á undan mér og fleirum reyndar að í þessu frumvarpi felist traustsyfirlýsing á að fólki verði treyst almennt til að fara með áfengi og umgangast áfengi og það séu ákveðin rök fyrir frumvarpinu og að létta þar með á aðgengi að áfengi.

Það má því kannski jafnvel spyrja: Út af hverju ekki bara treysta fólki almennilega og hafa engin lög um áfengi, engin umferðarlög, engin lög um eftirlit með sölu á tóbaki o.s.frv. ef það er málið? Ég held að svo sé þó ekki.

Hér var vitnað í skýrslu frá Lýðheilsustöð sem má finna á heimasíðu hennar og hefur verið dreift til þingmanna eins og komið hefur hér fram. Hún heitir Áfengi – engin venjuleg neysluvara og þar segir, með leyfi forseta:

„Í umræðu um forvarnir og áfengismál ber oft á þeim misskilningi að forvarnir snúist eingöngu um fræðslu um skaðsemi áfengis og ábyrgt uppeldi barna. Öflugt forvarnastarf felst ekki síður í réttum stjórnvaldsaðgerðum. Niðurstöður fjölda rannsókna sýna að aðgengi og verð á áfengi eru lykilþættir sem varða heildaráfengisneyslu hverrar þjóðar.“

Þetta segir í upphafi skýrslunnar.

Öfugt við það sem kom fram áðan, að mig minnir hjá hv. þm. Ástu Möller, um aukningu á neyslu áfengis í landinu segir í þessari sömu skýrslu:

„Á síðustu áratugum hefur áfengisneysla á Íslandi aukist úr 4,0 lítrum af hreinum vínanda á hvern einstakling 15 ára og eldri árið 1985 í 7,2 lítra árið 2006.“ (Forseti hringir.) Hverju ætli megi þakka það?