135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[18:34]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Það hefur verið býsna athyglisvert og fróðlegt að taka þátt í og fylgjast með umræðunni sem hefur farið fram í dag á hinu háa Alþingi og hófst eftir hádegið. Ég hygg, miðað við mælendaskrá í þessu máli, að tæplega þriðjungur þingheims hafi fjallað um málið í dag og ef fram heldur sem horfir haldi umræðan áfram á morgun. Ég hygg að fleiri þingmenn hafi talað í þessu máli og látið sig þetta mál varða en fjárlögin og fjáraukalögin sem við ræddum um í síðustu viku. Það segir ákveðna sögu í þessu máli. Ég hef stundum talað um það, á mínum fyrri vettvangi í borgarstjórn Reykjavíkur, að oftast urðu lengstu umræðurnar um tvö mál, annars vegar um hundahald og hins vegar um brennivín. Ekki fór jafnmikil umræða fram um fjárhagsáætlun og mér sýnist að hið sama sé upp á teningnum á Alþingi.

Margir þingmenn hafa tekið til máls í þessari umræðu og það er greinilegt að ákaflega skiptar skoðanir eru um þetta mál. Þetta mál er að ég held flutt í fimmta eða sjötta sinn á Alþingi og hefur aldrei náð fram að ganga. Að mörgu leyti hygg ég að þessi umræða minni um margt á þá umræðu sem átti sér stað í aðdraganda þess er bjór var leyfður hér á Íslandi árið 1989. Þá hafði margoft verið flutt frumvarp á þingi um bjórinn en aldrei náð fram að ganga.

Af hverju er ég að rifja þetta upp hér og nú? Jú, ég vil að mörgu leyti taka undir það sem hv. þm. Guðbjartur Hannesson, 2. þm. Norðvest., sagði í umræðunni. Ef ég hef skilið þingmanninn rétt þá orðaði hann það á þann veg að þetta væri ekki spurning um hvort heldur hvenær þessi mál næðu fram að ganga. Ég tek undir það. Ég vil hins vegar lýsa þeirri skoðun minni að ég tel að við séum ekki komin það langt í umræðunni um þessi mál að heppilegt sé að þetta frumvarp fari í gegn eins og það lítur út. Við þurfum að mörgu leyti að þroska umræðuna, ekki bara inni á Alþingi heldur líka úti í samfélaginu, til að hægt sé að samþykkja frumvarpið eins og er.

Margir hafa talað um forvarnir í þessari umræðu. Það er bara þrennt sem gildir þegar rætt er um forvarnir. Það er í fyrsta lagi aðgengið, í öðru lagi aldurinn og í þriðja lagi álögur, þ.e. verðið. Hér erum við að tala um að í þessu frumvarpi verði aðgengi að áfengi rýmkað og opnað fyrir það. Þar með göngum við í raun og veru gegn yfirlýstu markmiði áfengislaganna um að gegna ákveðnu forvarnahlutverki.

Ég get líka upplýst þingheim um að ég er mjög mikil áhugamanneskja um vín. Ég kann vel að meta góð vín og ég er áhugamanneskja um vínmenningu. Ég vil, af því að menn hafa úr þessum ræðustól, m.a. hv. 1. flutningsmaður þessa frumvarps, hv. þingmaður Sigurður Kári Kristjánsson, talað um vínmenningu, reifa nokkur sjónarmið sem ég hef haft áhyggjur af í þessu frumvarpi sem snúa einmitt að vínmenningu.

Í dag er það þannig, sem hefur verið þróunin hygg ég á síðastliðnum tíu árum, að verslanir ÁTVR hafa tekið sig mjög á í markaðssetningu. Verslunum hefur fjölgað, þær hafa verið gerðar bjartari og meira aðlaðandi, opnunartími er mjög frjáls og hér á höfuðborgarsvæðinu er á sumum stöðum opið til klukkan átta á kvöldin alla daga en lokað á sunnudögum. Verslanir ÁTVR bjóða upp á afburðaþjónustu. Ég hygg að það séu ekki margar aðrar sérverslanir í landinu sem bjóða eins góða þjónustu og verslanir ÁTVR. Ef maður gengur inn í verslun ÁTVR er nánast alltaf hægt að ganga að einhverjum sérfræðingi sem getur frætt mann um hinar ýmsu tegundir t.d. léttvína. Þjónustan hefur batnað mjög mikið og opnunartíminn líka verið að lengjast. Ég óttast því mjög að verði þetta frumvarp samþykkt muni vínmenningu Íslendinga hraka.

Hvernig rökstyð ég það? Jú, ég hygg að fái markaðurinn einn að ráða, þ.e. verslanir, matvöruverslanir sem taka inn léttvín og bjór, verði þar fyrst og fremst tekinn inn ódýr bjór, svo dæmi sé tekið, og ódýrt léttvín. Ég óttast að gæðavín svokallað verði ekki tekið inn í matvöruverslanir þannig að ÁTVR eða aðrir aðilar sem halda úti sérverslunum verði með rauðvín og hvítvín í dýrari gæðaflokki og svo sterkt vín. Síðan geta menn velt því fyrir sér hvort það sé rekstrargrundvöllur fyrir slíkar verslanir. Ýmsir hafa bent á að þetta gæti gert það að verkum, vegna þess að það er ekki rekstrargrundvöllur fyrir „fínni vínbúðum“ og vínbúðum með sterkt vín, að vínbúðum mundi fækka, þjónustan mundi versna, opnunartíminn yrði styttur og t.d. hér í Reykjavík mundi verslunum fækka, afgreiðslutíminn styttast og þjónustan versna.

Ég tala nú síðan ekki um hvaða áhrif þetta hefði á landsbyggðina. Ég hygg að ekki yrði hægt á eins mörgum stöðum og í dag að halda úti slíkum sérverslunum með gæðavín. Þar sjáum við kannski fram á afturhvarf til gamla tímans, þ.e. að menn þurfi að panta sér áfengi í gegnum póstinn og fá það sent á minni staði úti á landi.

Ég sé að þingmenn hér í salnum brosa að þessu. En þetta eru vangaveltur og að ég held eðlilegar hugleiðingar um hvað muni gerast ef þetta verður þróunin. Við þekkjum þetta frá því þegar við erum erlendis og förum í matvöruverslanir, ég skal bara taka Danmörku sem dæmi. Maður fer í verslanir sem gjarnan eru kallaðar Seven Eleven í Kaupmannahöfn. Menn kaupa ekki gæðavín í þeim búðum heldur fyrst og fremst kassavín, ódýrara vín og bjór. Ég hygg að það gæti orðið þróunin hér á Íslandi. Það er nokkuð sem ég vil ekki standa að.

Ég hins vegar skal játa að ég á pínulítið erfitt með að koma mér upp mjög sterkum skoðunum í þessu máli svo ég sé einlæg með það. Ég get skilið sjónarmið þeirra sem tala alfarið gegn þessu máli og ég get líka skilið sjónarmið þeirra sem tala mjög hart fyrir þessu máli. (Gripið fram í.) Ég hygg meira að segja að ef málið kæmi til atkvæða í þessum sal þá yrði afstaða mín sú að greiða ekki atkvæði.

Ég vil að endingu taka undir þau sjónarmið sem sett voru fram í dag í umræðunni, að þetta er allt saman spurning um rétta tímasetningu, að setja mál fram á réttum tíma og í takt við þann tíðaranda að þau hafi almennan hljómgrunn í samfélaginu. Þetta mál hefur verið flutt hér átta sinnum, held ég (Gripið fram í: Fimm sinnum.) fimm sinnum. Málið hefur áður verið flutt fimm sinnum og í sjötta sinn nú. Það getur vel verið að það þurfi að flytja það nokkrum sinnum til viðbótar. En ég er viss um og heiti á okkur þingmenn að standa fyrir almennri opinni og fordómalausri umræðu um vínmenningu okkar Íslendinga og það hvaða áhrif aukið aðgengi og það að ganga þennan veg til enda muni hafa í heilbrigðiskerfinu, í félagskerfinu og víðar í samfélagi okkar.