135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[18:49]
Hlusta

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir orð hv. síðasta ræðumanns, ég held að tíminn sé ekki kominn. Það er mín sannfæring að vín flokkist miklu fremur undir ómenningu en menningu. Auðvitað er vín að hluta til jarðrækt og jurtafræði eins og á við um ýmsar saftir sem gerðar eru, hvort sem það er rabarbarasaft eða krækiberjasaft. Deilan um vín heldur áfram og vínið hverfur varla en það er spurning hvort það sé ástæða til að auka aðgengi að því.

Góður vinur minn, Viðar Einars Togga, var að deila um það í kaffitíma í Ísfélaginu í Vestmannaeyjum við félaga sína hvort hann mætti drekka vín. Það endaði með því að menn komust ekki að samkomulagi. Viðar hafði mjög einfalda kenningu: Það má drekka vín.

Þá spurðu félagarnir: Hvar stendur það?

Það stendur í Biblíunni.

Hvernig er því svarað þar? spurðu félagarnir.

Ja, það er nú þannig, sagði Viðar, það stendur að Jesús hafi drukkið, smakkað vín, voða lítið, á jólunum, páskunum og þjóðhátíð Vestmannaeyja.

Þannig getur auðvitað umræðan haldið áfram í einlægni og öllu slíku. En það skýtur örlítið skökku við að þegar heilbrigðisstefna landsins er sú að draga úr áfengisneyslu eigi að auka hana. Og mér finnst það ekki hróssvert í sjálfu sér að fagna því sem kallað var afburðaþjónusta hjá ÁTVR um afgreiðslutíma og (Forseti hringir.) annað.