135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[18:51]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er ágætt að heyra að við hv. þm. Árni Johnsen erum þó sammála um eitt og það er að tími þessa máls sé ekki upprunninn nú. Eftir stendur þó að við erum ósammála um að til sé eitthvað sem heitir vínmenning. Ég stend á því fastar en fótunum að hóflega drukkið vín gleðji mannsins hjarta.

Þess vegna endurtek ég það sem ég sagði áðan varðandi þessi gæðamál. Ég hef áhyggjur af því í fyllstu einlægni að við séum að sigla inn í það, ef þetta verður leyft, að þá verði „ódýrari“, þ.e. verri, vín og bjór seld í matvöruverslunum, gæðavín verði í sérverslunum og þannig muni vínmenningu landans hraka fyrir utan það sem ég nefndi varðandi landsbyggðina. Á því byggi ég afstöðu mína til þess að telja að tími þessa frumvarps sé ekki kominn.