135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

afgreiðsla iðnaðarnefndar á frumvörpum til vatnalaga.

[13:34]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli forseta og þingheims á því að fyrr í dag var tekið út úr iðnaðarnefnd frumvarp iðnaðarráðherra um frestun vatnalaga um eitt ár. Ég studdi þá málsmeðferð, vil taka það fram. Það er óvenjulegt að senda mál sem þetta út úr nefnd án þess að umsagna sé leitað en því ræður auðvitað sá knappi tímafrestur sem er nú til 1. nóvember nk. Á sama fundi, virðulegi forseti, var fellt að afgreiða á sama hátt frumvarp okkar þingmanna Vinstri grænna sem gengur þó lengra, er 8. mál þingsins og fjallar um brottfall þessara sömu vatnalaga.

Mér þykir miður að þetta skuli hafa orðið niðurstaðan í nefndinni. Það hlaut ekki atkvæði nema mitt eigið að afgreiða málið á sama hátt. Mér þykir það miður vegna þess að ég hefði talið eðlilegt að þingið fengi tækifæri til að greiða atkvæði um bæði þessi mál og taka afstöðu til þeirra. Ég minni á að frumvarp vinstri grænna um brottfall vatnalaganna er samhljóða máli sem öll stjórnarandstaðan sameinaðist um á fyrri þingum.