135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

afgreiðsla iðnaðarnefndar á frumvörpum til vatnalaga.

[13:35]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á því að í iðnaðarnefnd í hádeginu var tekið út hið góða mál, stjórnarfrumvarpið um frestun vatnalaga, og vonandi náum við að afgreiða það í þinginu fyrir 1. nóvember þegar vatnalögin áttu að taka gildi.

Varðandi málsmeðferðina sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir vekur athygli á var hún fullkomlega eðlileg vegna þess að á auglýstri dagskrá var eitt mál og það var mál hæstv. iðnaðarráðherra, Össurar Skarphéðinssonar. Ég tel og við töldum eðlilegt að þegar á að afgreiða mál út úr nefnd séu þau á auglýstri dagskrá. Sú var ástæðan fyrir þessari afstöðu okkar í sem stystu máli.

Virðulegi forseti. Varðandi samt síðan málið í heild sinni verð ég að segja alveg eins og er að frestunarmálið snýst um að efna samkomulag sem var gert meðal allra stjórnmálaflokka á Alþingi. Það var gert samkomulag um að fresta gildistöku vatnalaganna þegar deilur stóðu sem hæst fyrir tveimur árum og að skipuð yrði nefnd sem færi yfir málið. Sú nefnd tók aldrei til starfa. Með þessu frumvarpi er gert ráð fyrir því, og þess vegna er ársfresturinn gefinn, að sú nefnd ljúki störfum sínum, nefndin sem samið var um milli allra stjórnmálaflokka í þinginu að tæki til starfa.

Þess vegna þykir mér undarlegt ef menn eru í aðra röndina búnir að samþykkja að fara þá leið að ætla svo samt að leggja til á hinn bóginn að fara einhverja allt aðra leið. Vinstri græn samþykktu í iðnaðarnefnd að fara frestunarleiðina, þau samþykktu það og ég spyr þá: Skiptu þau um skoðun? Vilja þau núna fella úr gildi lögin sem þau voru að samþykkja að ætti að fara í ferli sem (Forseti hringir.) samþykkt var á sínum tíma, þ.e. í eðlilegt ferli nefndarinnar sem samþykkt var þverpólitískt?