135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

afgreiðsla iðnaðarnefndar á frumvörpum til vatnalaga.

[13:41]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Já, frestur er sannarlega á illu bestur. Það er alveg rétt og ég tók skýrt fram áðan að ég lagðist ekki gegn því að fresta gildistöku vatnalaganna um eitt ár.

Herra forseti. Um hvað snýst þetta mál? Allt í einu er svo að heyra sem sáttin sem hér var gerð um að fresta gildistöku þessara illræmdu laga á sínum tíma hafi snúist um að það hafi þurft að skipa nefnd. Það hefur ekki vafist fyrir þessari ríkisstjórn eða öðrum að skipa nefndir og ég sé ekki betur, ef menn eru að tala um slæma samvisku, en að hæstv. iðnaðarráðherra geti skipað eins margar nefndir og þörf er en hann getur greinilega ekki staðið við þá sannfæringu sína, þau kosningaloforð og sameiginlega stefnu stjórnarandstöðunnar á síðasta þingi að fella þessi lög úr gildi. Það er þá ekkert þegar þau eru fallin úr gildi sem stendur í vegi fyrir því að skipa megi nefnd til að fara í málið að öðru leyti. Það er það sem ég geri athugasemdir við, þingið hefði þurft að fá að taka afstöðu til þess hér um leið.