135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

afgreiðsla iðnaðarnefndar á frumvörpum til vatnalaga.

[13:49]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Mér finnst hæstv. iðnaðarráðherra oft dramatísera hlutina dálítið mikið. (Gripið fram í.) Ég var ekki í þingsalnum um daginn þegar vatnalögin voru rædd en sannleikurinn er sá að ég lagði enga áherslu á að vera hérna. Ég þekki þessi lög betur en sennilega flestir hér inni og hef mjög góða samvisku hvað það varðar að hafa barist fyrir því að koma þeim í gegnum þingið með félögum mínum sem þá voru í Sjálfstæðisflokknum. Það var mikill einhugur á milli þessara tveggja flokka um það hvernig þetta skyldi gert.

Síðan var samið að næturlagi, þegar málþóf hafði staðið hér í einhverjar vikur, um það að skipa nefnd. Það var, eins og hér hefur komið fram, ekki hægt að skipa hana meðan ég var í iðnaðarráðuneytinu vegna þess að ekki höfðu borist tilnefningar frá öllum flokkum. Síðan kemur annar maður í iðnaðarráðuneytið, sem heitir Jón Sigurðsson. Ég held að allir átti sig nú á því að sá ágæti og vandaði maður gat ekki vitað nákvæmlega um allt það sem var í pípunum í því ráðuneyti. (Gripið fram í.) Þarna er um að ræða ákveðna handvömm í iðnaðarráðuneytinu sem mér finnst engin ástæða til að hafa mörg orð um.

En ég endurtek það að hæstv. iðnaðarráðherra hefði getað skipað þessa nefnd strax í staðinn fyrir að reyna að gera svona mikið úr því í fjölmiðlum að nefndin skuli ekki hafa verið skipuð. Aðalatriðið er að þessi nefnd átti alls ekki að fara ofan í grundvallaratriði. Það var spurning um það hvort þjóðnýta ætti vatnsauðlindir eða ekki. Það er það sem fyrrverandi stjórnarandstaða vildi. Þannig að ágreiningurinn stendur á milli þeirra tveggja flokka sem nú eru í ríkisstjórn. Hann er 100% um það hvort þjóðnýta eigi vatnsauðlindirnar eða hvort einkaeignarrétturinn eigi að gilda. (Gripið fram í.)

Þannig að við skulum fylgjast með. Þetta er eitt af þeim stóru og spennandi málum sem eru komin upp á milli stjórnarflokkanna sem þeir vita ekkert hvernig þeir eiga að leysa úr. (Forseti hringir.)