135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

fjárheimildir til endurnýjunar Grímseyjarferju.

[13:53]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hér hljóðs til þess að ræða fjárreiður tengdar kaupum á nýrri Grímseyjarferju. Nú í morgun barst minnisblað til fjárlaganefndar frá fjármálaráðherra og ríkisendurskoðanda þar sem í ljós kemur að hæstv. ráðherra dregur mjög úr þeim stóru og miklu yfirlýsingum sem hann hefur viðhaft um þetta mál og telur koma til greina að bæta úr ýmsu hvað þetta mál áhrærir.

En hæstv. forseti. Það er svo margt í þessu máli sem hefur farið úrskeiðis sem hæstv. ráðherrar eru ekki tilbúnir að viðurkenna. Við skulum fara í örstuttu máli yfir sögu þessa máls.

Á ríkisstjórnarfundi í apríl árið 2005 var lagt fram minnisblað af hálfu hæstv. þáverandi samgönguráðherra um heildarkostnað við kaup og endurbætur á Grímseyjarferju. Kostnaðurinn átti þá að vera 150 millj. kr. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur í ljós að fljótlega eftir þennan fund vissu samgönguráðuneytið og Vegagerðin að kostnaður við kaup og endurbætur á ferjunni yrði miklu hærri en ríkisstjórninni var kynnt þá.

Í nóvember árið 2005 er svo gert samkomulag á milli fjármálaráðuneytis, samgönguráðuneytis og Vegagerðarinnar um fjármögnun á verkefninu, væntanlega með vitund hæstv. ráðherra Árna M. Mathiesens og Sturlu Böðvarssonar. Í samkomulaginu, sem ég hef hér undir höndum, segir, með leyfi hæstv. forseta.

„Hafi Vegagerðin ekki svigrúm til þess að nýta ónotaðar fjárheimildir mun fjármálaráðuneytið heimila yfirdrátt sem þessari vöntun nemur.“

Ég vek athygli þingheims á því að þetta er árið 2005 og Alþingi ekki einu sinni búið að afgreiða fjárlög ársins 2006 þar sem hin umdeilda 6. gr. heimild kom fyrst inn. Á minnisblaðinu eru þessu samkomulagi áætlaðar 250 millj. kr. en sá kostnaður var kynntur í ríkisstjórn fyrr á árinu sem kostnaður upp á 150 millj. kr. Hér hafa því ríkisstjórnin og Alþingi verið leynd mjög mikilvægum upplýsingum um þessi mál og það er skjalfest hér. Ríkisendurskoðun segir um þennan gjörning, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkisendurskoðun gerir alvarlega athugasemd við framangreinda ákvörðun og þá aðferð sem notuð er við að fjármagna kaup og endurbætur á ferjunni og telur hana á engan hátt standast ákvæði fjárreiðulaga.“

Sjálft fjármálaráðuneytið fer á svig við fjárreiðulögin að mati Ríkisendurskoðunar. Á meðan heldur hæstv. fjármálaráðherra því blákalt fram að hér sé um eðlilegt verklag að ræða og ekkert athugavert á ferðinni.

Hæstv. forseti. Af hverju var ekki leitað eftir fjárheimildum Alþingis áður en þetta samkomulag var gert? Var málið kannski komið í þær ógöngur á haustdögum ársins 2005, þegar ljóst var að kostnaður var kominn langt umfram það sem ríkisstjórnin samþykkti á sínum tíma, að það þoldi ekki dagsins ljós? Mátti kannski ekki upplýsa þetta mál fyrr en eftir kosningarnar árið 2007? Því hér er vissulega um grafalvarlegt mál að ræða.

Staðreyndin er þessi: Ríkisstjórnin heimilaði kaup og endurbætur á Grímseyjarferjunni upp á 150 millj. kr. Nú er ljóst að kostnaðurinn verður að minnsta kosti 500 millj. kr. Rúmlega 300% hækkun. Allt byggt á samkomulagi sem ekki var gert opinbert. Allt byggt á samkomulagi sem fulltrúi fjármálaráðherra átti aðild að. Allt byggt á samkomulagi sem aldrei hefur komið fyrir sjónir ríkisstjórnarinnar eða hv. Alþingis fyrr en nú á sumardögum.

Í apríl árið 2006 var gengið frá samningi við fyrirtæki í Hafnarfirði, Vélsmiðju Orms og Víglundar, um endurbætur á ferjunni. Reyndar var tilboð fyrirtækisins ekki lægst og stóðst ekki upphafleg útboðsskilyrði, m.a. um lágmarkseiginfjárhlutfall. En þá var skilmálunum bara breytt. Hver stóð að því? Og ákveðnir þættir sem voru fyrirtækinu óhagstæðir voru bara felldir út úr tilboðinu. Minni hluti fjárlaganefndar vildi fá að skoða þennan þátt málsins sérstaklega. En meiri hlutinn, þessi stóri meiri hluti, neitaði minni hlutanum um það og málið var rifið út úr nefndinni án þess að þessi þáttur væri skoðaður eitthvað frekar. Ég vísa til umfjöllunar Morgunblaðsins þann 9. september síðastliðinn um þessi mál.

Þegar kostnaður við endurbætur á ferjunni er skoðaður nánar kemur í ljós að kostnaður við aukaverk Vélsmiðju Orms og Víglundar er 65 millj. kr. Sérfræðingur Siglingamálastofnunar hafði bent málsaðilum á að vanda yrði til verka þegar kæmi að aukaverkunum því þau væru dýr ef ekki væri samið um þau fyrir fram. Það var ekki gert. Og reyndar var það sérstaklega tekið fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að fyrirtækið hefur nær aldrei skilað inn formlegum tilboðum í aukaverkin þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir eftirlitsaðila til þess að fá slíkt tilboð.

Er þá ekki rétt að fjárlaganefnd Alþingis skoði svona mál? Nei. Þetta mál er rifið úr höndum nefndarinnar í andstöðu við minni hluta hennar. Ég held því að vert sé að ræða þessi mál hér á Alþingi. Ekki eru öll kurl komin til grafar í þessu máli, hæstv. forseti.

Fjármálaráðherra hefur talað um fjárreiður þessa máls sem eðlilegt verklag, eins og hann sagði í viðtali við Morgunblaðið fyrir nokkru. Að ekkert sé athugavert við málsmeðferðina. Ég spyr hér fulltrúa stjórnarmeirihlutans hafandi hlustað á þessa ræðu. Telja menn virkilega að ekkert sé athugavert við þetta verklag? Ekki neitt. Fyrrverandi samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson, telur að hann beri enga ábyrgð. Ég spyr meiri hlutann hér á Alþingi. Er hann sama sinnis? Hæstv. núv. samgönguráðherra, sem hóf allt þetta mál með miklum yfirlýsingum í aðdraganda síðustu kosninga, hefur kennt einum skipaverkfræðingi um allt klúðrið.

Er það virkilega svo, hæstv. forseti, að það ætli enginn að viðurkenna ábyrgð sína í þessu máli? Í þessu dæmalausa klúðri frá upphafi til enda. Hér hafa verið teknar ákvarðanir á bak við Alþingi og það er mjög alvarlegt mál. Og þingið þarf að standa vörð um þau völd sem það hefur gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég trúi því ekki, hæstv. forseti, fyrr en ég tek á því að sá stóri meiri hluti sem er á bak við ríkisstjórnina hér á hinu háa Alþingi ætli að láta leiða sig í þessu máli. Ég trúi því heldur ekki að Samfylkingin ætli að taka sérstaklega upp hanskann fyrir þá ráðherra Sjálfstæðisflokksins sem stóðu svona að málum. Það verður mjög fróðlegt að fylgjast með því hvernig þessari umræðu vindur fram.