135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

fjárheimildir til endurnýjunar Grímseyjarferju.

[14:09]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Þetta mál snýst um grundvallaratriði, það snýst um prinsipp, það snýst um það hvort farið er að lögum og það snýst um góða stjórnsýsluhætti. Öll viljum við að góð ferja gangi frá Grímsey til lands, milli lands og eyjar eins og sagt er, um það er ekki deilt.

Mál sem verður til með þessum hætti í stjórnsýslunni er ámælisvert. Hér er upphafið rakið. Hinn 12. apríl 2005 heimilar ríkisstjórnin kaup á írsku ferjunni Oilean Aran sem átti að koma í stað Grímseyjarferjunnar Sæfara. Málið fer samt ekki inn á fjárlög. Áætlað kaupverð er 150 millj. kr. ásamt endurbótum. Og 25. nóvember sama ár undirrita samgönguráðuneytið og fjármálaráðuneytið yfirlýsingu þar sem með beinni tilvitnun í Ríkisendurskoðun stendur, með leyfi forseta:

„Ákveðið að fjármagn nýrrar Grímseyjarferju verði af ónotuðum heimildum Vegagerðarinnar fram til ársins 2007 og 2008. Hafi Vegagerðin ekki svigrúm til þess að nýta ónotaðar fjárheimildir mun fjármálaráðuneytið heimila yfirdrátt sem þessu nemur.“

Þarna eru komin þrjú ár þar sem fjárlög eru afgreidd á Alþingi án þess að málið komi þar inn. Var að furða þó að Ríkisendurskoðun gerði mjög harða athugasemd við þetta og segi í umsögn sinni í skýrslu sem hún sendi frá sér, með leyfi forseta:

„Að mati Ríkisendurskoðunar stenst þessi aðferð á engan hátt ákvæði fjárreiðulaga og getur ekki talist til góðrar stjórnsýslu.“

Sú setning stendur. Ef við komum síðan að þætti fjárlaganefndar þá kom málið til fjárlaganefndar, skýrsla Ríkisendurskoðunar. Þar voru höfð uppi digurmæli um að nú yrði farið mjög gaumgæfilega í þetta mál og var fjárlaganefnd sammála um það. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sendum reyndar ráðherra, bæði samgönguráðherra og fjármálaráðherra og fjárlaganefnd erindi þar sem við óskuðum eftir að sett yrði sérstök nefnd í málið sem kannaði hvort ekki væri hagkvæmara og öruggara og þjónaði best framtíðarhagsmunum að endurbætur á þeirri ferju sem nú er unnið að yrðu stöðvaðar og hún seld í því ástandi sem hún væri og í stað hennar væri samið um byggingu nýrrar ferju sem þjónaði farþega- og vöruflutningum sem best á þessari leið. Ef höfð yrðu snör handtök á og ákvörðun tekin fljótlega gæti ný ferja byggð frá grunni verið tilbúin 2009 þegar undanþáguheimild fyrir núverandi ferju rynni út.

Fjárlaganefnd kallaði allmarga aðila á sinn fund og fór yfir málin. Svo kom eitthvert bakslag í forustu nefndarinnar þannig að hún afgreiðir málið frá sér eða gefur bráðabirgðaskýrslu þar sem það er afgreitt frá nefndinni. Meiri hlutinn afgreiðir það svona frá sér en segir þó í lokin, með leyfi forseta:

„Nefndin leggur til að reglur um flutning fjárheimilda á milli verkefna og milli ára verði gerðar skýrari en þær virðast nú og að því verkefni komi fjárlaganefnd, Ríkisendurskoðun og fjármálaráðuneyti.“

Málið var ekki afgreitt af hálfu nefndarinnar heldur af þessum þremur aðilum sameiginlega.

Við í minni hlutanum skiluðum séráliti þar sem við vorum óánægð með málalok eða þessar lyktir en úr því að þetta var bara áfangaskýrsla gerðum við grein fyrir hvað við vildum að gert yrði frekar. Hvað gerist svo í málinu? Í morgun er dreift hér minnisblaði frá fjármálaráðherra og ríkisendurskoðanda og þá kem ég aftur að góðri stjórnsýslu og hvernig farið er með framkvæmdarvaldið. Hér tilkynnir hæstv. fjármálaráðherra okkur að hann hafi ásamt ríkisendurskoðanda gengið frá samkomulagi um það hvernig fjárveitingum til þessa verkefnis skuli háttað, bæði á fjáraukalögum og á fjárlögum næsta árs. Málið er enn í þinginu, málið er enn í þingnefnd. Fjármálaráðherra og ríkisendurskoðandi eru ekkert fjárlagavald. Hér birtist aftur valdhroki fjármálaráðherra þegar hann kemur inn á Alþingi og tilkynnir fjárlaganefnd að hann virði hana ekki viðlits. Ég spyr hv. formann fjárlaganefndar: Ætlar hann að taka þessu kjaftshöggi fjármálaráðherra þegjandi, að það komi honum ekkert við með hvaða hætti málið sé afgreitt á þinginu? (Forseti hringir.) Þetta er slæm stjórnsýsla, herra forseti, og ég stend áfram með ríkisendurskoðanda í því að hér er verið að fara á svig (Forseti hringir.) við fjárreiðulög.