135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

fjárheimildir til endurnýjunar Grímseyjarferju.

[14:25]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Í 6. gr. fjárlaga 2006 var veitt heimild til að selja Grímseyjarferjuna MS Sæfara og ráðstafa andvirðinu til kaupa eða leigu á annarri hentugri ferju. Fyrir þá sem leggja sig fram er þetta ákvæði ekkert sérstaklega flókið og ber ekki að túlka öðruvísi en samkvæmt orðanna hljóðan. Allt tal um ágreining um túlkun þessara orða tel ég því miður eingöngu frá fjármálaráðuneytinu komið til að réttlæta málstað sinn í þessu undarlega máli.

Þrátt fyrir þetta skýra ákvæði ákveður hæstv. fjármálaráðherra Árni Mathiesen og hæstv. fyrrv. samgönguráðherra Sturla Böðvarsson að gera samkomulag við Vegagerðina um að bæði kaup og endurbætur á ferjunni verði fjármögnuð með ónýttum heimildum hennar. Svo bæta þeir um betur og veita Vegagerðinni ótakmarkaðan yfirdrátt úr ríkissjóði ef Vegagerðin hafi ekki svigrúm til að nýta ónotaðar fjárheimildir sínar. Þessi aðferð stenst því miður engan veginn ákvæði fjárreiðulaga eins og Ríkisendurskoðun bendir réttilega á. Þá var hvergi gert ráð fyrir útgjöldunum í fjárlögum fyrir árið 2006 eins og bar að gera. Mál þetta snýst ekki um venjulegan yfirdrátt eða umframkeyrslu á fjárlögum eins og rætt hefur verið um víða í fjölmiðlum. Á hverju ári fara fjölmargir fjárliðir fram úr veittum fjárheimildum og það er vitaskuld alvarlegt mál. Því má alls ekki rugla við það mál sem hér er til umræðu. Hér er um að ræða verkefni sem hlotið hefur formlegt samþykki Alþingis og ákveðin upphæð ætluð til verksins. Mál þetta snýst fyrst og fremst um það hvort fjármálaráðherra geti ráðstafað fé úr ríkissjóði án atbeina Alþingis og hvort ráðstöfun úr ríkissjóði sé einkamál fjármálaráðuneytisins.

Það sem var alvarlegt í þessu máli var að fjármálaráðherra virtist ekki sýna neinn vilja til að breyta því verklagi sem viðgekkst í ráðuneytinu. Þvert á móti réðst hann í ritdeilur við eftirlitsstofnun Alþingis, Ríkisendurskoðun, sem er fádæmi í stjórnsýslunni og þótt víðar væri leitað. Því miður bar fjáraukalagafrumvarpið fyrir árið 2007 aðeins með sér að sami háttur skyldi hafður á áfram. Þar kom hvergi fram tillaga um að mæta útgjöldum vegna Grímseyjarferjunnar.

Á minnisblaði sem hæstv. fjármálaráðherra sendi til fjárlaganefndar í dag ásamt Ríkisendurskoðun kemur fram að leita verði heimilda fyrir kaup og endurbætur á Grímseyjarferjunni í fjáraukalögum fyrir 2007 og í fjáraukalögum fyrir 2008. Þetta verður ekki skilið öðruvísi en sem viðurkenning á þeirri túlkun að heimild til slíkra framkvæmda verði að vera á fjárlögum hvers árs og fjármálaráðherra geti ekki ráðstafað fé úr ríkissjóði án atbeina Alþingis. (Forseti hringir.) Það verður einnig að túlka viðhorfsbreytinguna þannig að sá kattarþvottur sem meiri hluti fjárlaganefndar viðhafði (Forseti hringir.) er engan veginn fullnægjandi til að klára þetta mál.