135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

fjárheimildir til endurnýjunar Grímseyjarferju.

[14:39]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er deginum ljósara að hefur margt farið úrskeiðis í öllu þessu máli og margir bera ábyrgð. Æðstu yfirmenn Vegagerðar ríkisins geta ekki vikið sér undan ábyrgðinni á sínum þætti í þessu máli né heldur ráðgjafi þeirra. Ráðherrar sem komu að málinu á upphafsstigum geta heldur ekki vikið sér undan ábyrgð í þessu máli né heldur ríkisstjórnin öll sem þá sat.

Málið hefst með samþykkt ríkisstjórnarinnar í apríl 2005 þar sem hún heimilar kaup og endurbætur á ferju. Menn gera sér kannski ekki grein fyrir því að ríkisstjórnarfundir eru í sjálfu sér engin stjórnsýslustofnun. Ríkisstjórnin fer ekki með neitt framkvæmdarvald sem heitið getur. Ríkisstjórnarfundir eru bara huggulegir tefundir þar sem stjórnmálamenn koma saman og ná sameiginlegri niðurstöðu um það sem þeir ætla að gera. Menn taka ekki ákvörðun á ríkisstjórnarfundi um að eyða 150 millj. kr. úr ríkissjóði. Menn hafa ekki vald til þess. Stjórnarskráin heimilar það ekki. Engu að síður hefur það verið vaxandi tilhneiging hjá ráðherrum á undanförnum árum að taka sér þetta vald og gefa út tilkynningar með þeim hætti að þeir tilkynni: Við höfum ákveðið að ráðast í þetta verkefni. — Svo er verkefnið sett í gang þrátt fyrir að heimildina skorti.

Þetta er mikið vandamál, virðulegi forseti, sem einskorðast ekki við þá tvo ráðherra sem helst koma að þessu tiltekna máli. Allir ráðherrar sem setið hafa á mörgum undanförnum árum hafa verið þátttakendur í því, af fúsum og frjálsum vilja, að rýra hlut Alþingis og auka sinn hlut með ólögmætum hætti, virðulegi forseti.

En hinu er ekki að neita að hæstv. fjármálaráðherra hefur gengið lengra en nokkur ráðherra áður í því að sniðganga ákvæði stjórnarskrár lýðveldisins og ákvæði fjárreiðulaga með því að heimila að stofna til útgjalda vegna verkefnis sem Alþingi samþykkti ekki fjárveitingu til. Hann heimilaði að auki að stofna til yfirdráttar til viðbótar þeim fjárveitingum sem stofnunin hafði að öðru leyti til annarra verkefna.

Þessi þáttur málsins er hið alvarlegasta í þessu máli þótt það eigi sér skírskotun til annarra mála sem á undan hafa farið. Það er kominn tími til að stjórnmálamenn taki á þessari stöðu ráðherra og það duga engin vettlingatök í því, virðulegi forseti.