135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

fjárheimildir til endurnýjunar Grímseyjarferju.

[14:42]
Hlusta

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um mikilvægi þess að góðar og tryggar samgöngur séu á milli staða, hvort sem er í þéttbýli eða utan þess og um það snýst þetta mál. Tryggar samgöngur eru forsenda byggðar í landinu og þróun byggðar á Íslandi felst fyrst og síðast í tryggum samgöngum, í víðasta skilningi þess orðs. Góðar samgöngur milli lands og eyja, líkt og á við í því máli sem hér um ræðir, á milli Grímseyjar og fastalandsins eru augljóst dæmi um gildi þess og tryggilega þarf að standa að slíkum málum og hvergi má gefa afslátt.

Það verður hins vegar að segjast að það hefur ekki átt við varðandi málsmeðferðina vegna hinnar nýju Grímseyjarferju, sé hægt að tala um nýja ferju í þessu samhengi. Meðferð þess máls er sorglegt dæmi um hvernig ríkisstjórn og ráðherrum hefur tekist að klúðra málum, einstökum málum, með svo afgerandi hætti að þegar upp er staðið stendur ekki steinn yfir steini og stefnan og markmiðin sem lagt var af stað með í upphafi hafa snúist í andhverfu sína.

Í upphafi var það svo að Grímseyingar sjálfir vöruðu stjórnvöld eindregið við að kaupa þá skipsnefnu sem á endanum var keypt til að bæta samgöngur á milli Grímseyjar og lands. Grímseyingar lögðu bæði í mikla vinnu og kostnað við að kanna þá kosti sem í boði voru, líka þann sem ríkisstjórnin illu heilli hrasaði um, og þeir vöruðu ákveðið við því að eyða fé og frekari fyrirhöfn í þau kaup sem við sitjum nú uppi með. Þau hafa ekki og munu ekki verða neinum til góðs þegar upp verður staðið. Grímseyingar færðu ítarleg rök fyrir máli sínu en á þá var ekki hlustað.

Það er ljóst að hin svokallaða nýja ferja mun ekki þjóna þeim tilgangi sem til var ætlast. Hún mun ekki þjóna Grímseyingum með fullnægjandi hætti. Hún mun ekki þjóna landsmönnum með fullnægjandi hætti og hún stenst ekki þær kröfur sem gerðar eru til samgöngutækja í dag nema að litlu leyti.

Eftir allt það klúður sem þegar er orðið við samgöngubætur til Grímseyjar eru það Grímseyingar sjálfir sem sitja í súpunni meðan aðrir reyna að þvo hendur sínar vegna málsins og neita að viðurkenna mistök sín. Það munu Grímseyingar hins vegar ekki geta gert. Þeir sitja uppi með afraksturinn af öllu klúðrinu í formi ferju sem þeir hvorki báðu um né vildu fá. Orðspor Grímseyjarferjuklúðursins mun hins vegar verða lífseigt og það munu Grímseyingar sitja uppi með á meðan aðrir víkja sér undan ábyrgð.

Það er síðan kaldhæðni örlaganna sem ræður því að það mun líklega koma í hlut núverandi hæstv. samgöngumálaráðherra, Kristjáns Möllers og Grímseyjarferjugagnrýnanda, að færa Grímseyingum þessa miklu afurð mistaka og klúðurs. Það verður á hans ábyrgð að koma þessu fleyi tjónlaust á milli tveggja hafna, yfir hafið og til nýrra heimkynna, þangað sem enginn vildi fá það.

Það er því ekki úr vegi fyrir ráðherrann að hafa í huga, þegar lagt verður upp í þá örlagaríku ferð, að hafið býr yfir hundrað hættum, eins og segir í ljóðinu, ekki síst (Forseti hringir.) þegar fleyið er ekki burðugra en það sem hér um ræðir.