135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

fjárheimildir til endurnýjunar Grímseyjarferju.

[14:45]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Málið sem hér er til umræðu í dag var mikið rætt í sumar sem leið og margir hafa látið stór orð falla í þeirri umræðu. Ég dreg enga dul á að mér finnst þetta mál að mörgu leyti klúður á klúður ofan. Ónógur undirbúningur og vond áætlunargerð gerði það að verkum að flest sem gat farið úrskeiðis fór úrskeiðis. Lögmál Murphys birtist okkur hér í sinni fegurstu mynd.

Þegar menn gera mistök eiga menn að læra af þeim og tryggja að slíkt gerist ekki aftur. Ég ætla ekki að velta mér upp úr því á þeim stutta tíma sem ég hef í þessum ræðustól nú eða elta uppi einhverja einstaklinga til ábyrgðar og heimta afsagnir. Það er nóg að stjórnarandstaðan sjái um það í þessari umræðu.

Ég verð þó að segja að mér finnst býsna holur hljómur í gagnrýni t.d. fyrrverandi formanns fjárlaganefndar, hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar, upphafsmanns umræðunnar í dag. Hvers vegna segi ég það? Jú, var ekki hv. þingmaður einmitt formaður nefndar sem átti að hafa eftirlit með fjárreiðum í máli sem skók samfélagið á síðasta ári og var stundum kennt við Byrgið? Mér finnst það ekki þjóna neinum tilgangi að ásaka einhverja einstaklinga fram og aftur. Mér virðist umræðan í þinginu í dag fyrst og fremst vera sett fram til að fá fram skylmingar, skylmingar á vettvangi, ekki til þess endilega að ná fram niðurstöðu eða til að koma með lausnir eða læra af málinu.

Á vettvangi samgöngunefndar hefur verið fjallað um málið. Við bíðum nú eftir skýrslu frá ráðuneytinu um lúkningu málsins. Samkvæmt upplýsingum sem ég hef undir höndum og fékk frá ráðuneytinu í morgun er gert ráð fyrir að ferjan verði tilbúin til siglinga öðrum hvorum megin við áramótin og er áætlaður kostnaður 487 millj. kr. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson kom hér upp áðan og efaðist um haffærni ferjunnar. Það er bara tóm della, vil ég leyfa mér að segja, að halda slíku fram. Þessi ferja mun sigla öðrum hvorum megin við áramótin.

Niðurstaða mín í þessu máli er sú að skortur á undirbúningi og vond áætlunargerð auk þess að eftirlitið klikkaði sé ástæða þess að svo fór sem fór. Á undirbúningsstigi þessa máls kom t.d. samgöngunefnd aldrei með beinum hætti að málinu. Því segi ég: Lærum af þessu, vöndum áætlunargerð og tryggjum að eftirlitshlutverk þingnefnda virki í málum sem þessum í framtíðinni. Fyrir því mun ég beita mér sem formaður samgöngunefndar.