135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

fjárheimildir til endurnýjunar Grímseyjarferju.

[14:48]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Umræðan í dag verður vonandi til þess að í framtíðinni lærum við að fara öðruvísi að en farið hefur verið að í þessu máli öllu saman. Auðvitað vænti ég þess að þegar upp verði staðið fái Grímseyingar ferju í hendurnar sem tryggt geti þeim örugga flutninga til og frá eyjunni á komandi árum.

Það er auðvitað ekki þannig að ekki sé hægt að endurbyggja gömul skip og gera þau góð til flutninga ef vel er að verki staðið. Það er auðveldlega hægt, en ég hygg að enn þá séu nokkur atriði sem þurfi að skoða í sambandi við þá ferju sem verið er að endurbyggja. Ég hygg að ábendingar Grímseyinga og áhafnar ferjunnar Sæfara í þessu máli hefðu mátt komast betur til skila en virðist hafa verið í öllu þessu ferli.

Menn velta því t.d. enn fyrir sér hvort burður í dekki þessa skips sé nægjanlegur til þess að leysa þau verkefni sem ferjunni eru ætluð. Þess vegna er ýmislegt sem menn þurfa að velta betur fyrir sér í verkferlinu öllu. En að lokum held ég að menn eigi einfaldlega að sameinast um að reyna að ljúka þessu máli, koma skipinu í haffært og öruggt ástand. Við bætum ekkert með því að þær fjárveitingar sem settar hafa verið í þetta skip nýtist ekki.

Mitt ráð er að lokum, hæstv. forseti, að reynt verði, úr því sem komið er, að klára þetta skip með fullum sóma þannig að þegar það siglir verði það öruggt til margra ára.