135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

fjárheimildir til endurnýjunar Grímseyjarferju.

[14:54]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég er alla vega með bindi.

Herra forseti. Að leyna upplýsingum? Ef upplýsingum hefði verið leynt værum við ekki að ræða þetta mál. Við erum einmitt að ræða málið af því að upplýsingum var ekki leynt.

Varðandi tilboðið í viðgerðina á ferjunni vil ég segja: Þegar fallið hafði verið frá lægsta og eina gilda tilboðinu í verkið var tilboð skipasmíðastöðvarinnar í Hafnarfirði lægsta tilboðið og því ekki um annað að ræða en ganga til samninga við þá aðila.

Síðan vil ég segja, herra forseti, varðandi kaupin í árslok 2005, að þau voru reyndar gerð með fyrirvara um samþykki Alþingis enda varð það samþykki síðan að veruleika nokkrum dögum síðar. Við verðum líka að hafa það í huga að í fjárlögum samþykkjum við heimildir til stofnana til þess að ráðstafa fjármunum. Í tilfelli Vegagerðarinnar er ekkert í fjárlögum tilgreint um einstök verkefni sem þeir fjármunir eigi að fara í. Það er hins vegar gert í samgönguáætlun en samgönguáætlunin hefur ekki lagagildi. Þegar samgönguáætluninni lýkur, þegar ekki er getið um verkefni þannig að það dugi til þess að ráðstafa öllum fjármununum falla heimildirnar ekki niður. Þá hefur auðvitað stofnunin möguleika á að nota þá fjármuni til sinna lögbundnu verkefna, eins og í tilfelli Grímseyjarferjunnar.

Varðandi heimildir fjármálaráðherra til þess að gera samninga eins og gerðir voru við Vegagerðina þá eru þeir samningar auðvitað ekki skilyrðislausir. Þeir þurfa auðvitað að vera í samræmi við lög og reglur sem um þetta gilda eins og 4% svigrúm og síðan um ófyrirséð útgjöld þar sem fjármálaráðherra getur samþykkt og greitt út fé. En það ræðst síðan af kringumstæðum. Samgönguáætlunin gerir ráð fyrir þessum fjármunum og er ótrúlegt að heyra hvernig fólk sem samþykkti þá áætlun talar um málið núna.

Ef fara ætti eftir túlkun hv. þm. Höskulds Þórhallssonar á greininni þá hefðum við auðvitað selt ferjuna en ekki keypt neina aðra. Þar af leiðandi væri engin ferja sem gæti siglt til Grímseyjar.

Ég vil, herra forseti, að lokum taka undir með hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur með að skylmingar um þetta mál eru algjörlega ástæðulausar. Við skulum læra af málinu og horfa fram á veginn.