135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

95. mál
[15:58]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Ég tek undir það með hv. þm. Ögmundi Jónassyni að ég þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni kærlega fyrir ábendingar hans. Þær voru athyglisverðar og verða að sjálfsögðu teknar til skoðunar. Það þarf allt að liggja uppi á borðum og vera hluti af gagnsæjum kjarasamningum, að sjálfsögðu.

Hér hefur farið fram góð umræða um sparisjóðina og samvinnufélögin og við munum kappkosta að leiða hana til lykta. Viðskiptanefnd hefur þar að sjálfsögðu ríkulegt hlutverk, eins og hv. þingmaður nefndi áðan. Eins munu allir þingflokkar sem eiga sæti á Alþingi hafa sitt hlutverk því að ég mun óska tilnefninga frá öllum þingflokkunum í endurskoðunarnefndina um samvinnufélögin. Ég tel langeðlilegast að öll stjórnmálaöfl sem eiga sæti á Alþingi komi að þeirri endurskoðun. Þetta er mjög mikilvæg löggjöf. Við munum kynna það á næstu dögum hvernig nákvæmlega verður óskað eftir tilnefningum. Að sjálfsögðu koma þar ýmsir aðilar að en m.a. frá öllum þingflokkunum. Ég held að það sé mikilvægt að stjórnmálaflokkarnir og sá vettvangur sem þingflokkarnir eru, kjörnir fulltrúar fólksins í landinu öllu, komi þar að málum. Þetta er mikilvæg löggjöf og hefur mikið að segja.

Ég þakka fyrir umræðuna og við munum áfram vinna vel að þessu máli.