135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

95. mál
[16:02]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni sem hefur beitt sér mjög í málefnum sparisjóðanna. Ég hef mikla samúð með málstað sparisjóðanna. Það er eitthvað glæsilegt og fagurt við uppbyggingu þessara fjármálastofnana sem annars vegar eru til að útvega fólkinu, almenningi, lánsfé á eins hagstæðum kjörum og hugsast getur samhliða því sem ábatanum af rekstri þessara stofnana skal varið til félagslegra málefna í héraði, hvort sem það er til að aðstoða fátækt fólk í lífsbaráttunni og skólastarfsemi, íþróttastarfsemi eða menningarstarfsemi, hvers konar félagslegri starfsemi. Þetta er einkar glæsilegt fyrirkomulag. Það væri mikil eftirsjá að sparisjóðunum sem slíkum úr flóru íslenskra fjármálafyrirtækja ef þeirra saga yrði öll, sem ég vona svo sannarlega að sé ekki.

Um leið virðist að sjálfsögðu sú þróun sem á sér stað með sameiningu sjóða og í sumum tilfellum hlutafélagavæðing vera viðbragð stjórnenda þeirra til að styrkja stofnanirnar og halda þeim samkeppnishæfum við stóru bankana sem væntanlega hafa mun betri aðstöðu til að útvega sér lánsfé á erlendum mörkuðum til að endurlána hérna heima o.s.frv.

Það verður, og hefði átt að gerast fyrir löngu, að fara heildstætt yfir umræðuna. Það sem mér finnst skipta mestu máli er að sparisjóðirnir séu til áfram, það sé staðinn vörður um starfsemi sparisjóðanna. Sjálfseignarstofnanirnar, menningarsjóðirnar sem hafa byggst upp í þeim og eru þar mjög verðmætir og stórir sjóðir, verða að vera áfram til og bundnar ákveðinni starfsemi á tilteknum svæðum, heimasvæðum sínum. En mestu skiptir að fara heildstætt yfir löggjöf um sparisjóðina, það er verið að því núna og við munum vonandi sjá afraksturinn af því fljótlega.