135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

95. mál
[16:04]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. ráðherra að farið skuli heildstætt yfir lagaumgjörð sparisjóðanna, einmitt á þeim forsendum sem ráðherrann rakti. Það held ég að sé mjög mikilvægt. Ég spyr því ráðherrann: Er þá ekki hægt að bremsa af þessa hlutafélagavæðingu og þessar innrásir sem núna er verið að gera á sparisjóðunum meðan verið er að koma á lagalegum grunni til að treysta stöðu þeirra? Hin siðferðislegu rök að vaða inn í sparisjóðina og hirða þar almannafé eru náttúrlega engin.

Það að horfa upp á SPRON verða hlutafélagavætt fyrir nokkrum árum — þá var almannahlutur SPRON einhvers staðar í kringum 90% af eigin fé en er núna kominn niður í 15% — var sárt. Hver stóð vörð um almannahlut SPRON í þessum efnum? Fjármálaeftirlitið á einmitt líka að standa vörð um hagsmuni almennings, ekki hvað síst eins og í þessu tilfelli sparisjóðanna.

Ég minni á að nýverið ætlaði Kaupþing að hálfloka útibúi sínu á Hólmavík, skerða þjónustuna. Ef þar væri ekki lítill sparisjóður væri þar lítið um fjármálaþjónustu. Ég legg áherslu á að Fjármálaeftirlitið hugsi vandlega sinn gang þegar það nú heimilar innbrotin í sparisjóðina eða blessar þau af því að þau brjóti ekki einhver lög sem ekki bjuggust við að slíkir menn væru á ferð.

Eins þarf líka að huga að því hvort ekki sé hægt að hægja á því ferli sem núna er komið í gang með græðgisvæðingu á sparisjóðunum, að reyna að komast yfir þá, meðan hæstv. ráðherra setur lög sem bremsa það af. Ég ítreka að ég fagna yfirlýsingum hæstv. ráðherra og hvernig hann nálgast málið í sínum málflutningi.