135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[16:31]
Hlusta

Flm. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ef það var aðalinnihald þessarar ræðu að helsti boðskapur hv. þingmanns væri að berjast gegn því að auka aðgengi fólks að áfengi þá hefur sá boðskapur dálítið farið fram hjá mér — hv. þingmaður hefur nú kannski gerst heldur dramatískari í ræðu sinni en efni stóðu til.

Mér fannst hann ekki gæta hófs þegar hann lýsti því hér að yrði frumvarpið að lögum mundi dauðsföllum fjölga. Er hv. þingmaður svo viss um að svo sé og er hann að halda því fram að við, þessir 17 þingmenn sem að frumvarpinu stöndum, séum að mælast til þess að dauðsföllum á Íslandi fjölgi?

Mér finnst allt í lagi að menn séu á móti frumvarpinu og þeim sjónarmiðum sem þar koma fram. En mér finnst fulllangt gengið þegar menn eru farnir að dramatísera hlutina með þeim hætti að (Forseti hringir.) flutningsmenn séu í raun að styðja slíka þróun sem hv. þingmaður lýsti.