135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[16:36]
Hlusta

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta snýst um það hvort við heimilum meira aðgengi að fíkniefnum en ekki að öðrum almennum vörum. Almennar vörur eru ekkert vandamál. Það má teygja sig endalaust og segja að of mikill sykur sé í appelsíni o.s.frv. en við erum að tala um efni sem menn tapa áttum af, og allt okkar kerfi í þjóðfélaginu byggist á því að taka það til greina og reyna að stemma stigu við því. Um það snýst þetta mál. Frumvarpið er gegn forvörnum eins og það er vegna þess að engin trygging er fyrir því að forvarnir gangi fram með ákveðnari hætti eins og þörf er á á sama tíma og við ætlum að auðvelda aðgengi að áfengi, og ég legg áherslu á að ég er fyrst og fremst að tala um ungt fólk, það er gegn forvörnum. Það er ekkert hægt að túlka það öðruvísi, það er ekkert hægt að snúa út úr þessu og réttlæta það á neinn annan hátt.

Ég benti á að Evrópa væri komin yfir strikið. Það er gífurleg offramleiðsla á vínum í Evrópu og þá þarf að koma þeim á markað. Þá er það orðið viðskiptamál frekar en heilbrigðismál eða félagslegt mál í þeim þjóðfélögum sem við er að glíma. Þá er það orðið vandamál sem er allt annars eðlis, menn fá ekki nógan pening inn í þeim bisness sem þeir eru í. Skítt með heilsuna.