135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[17:07]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Frumvarp þetta gengur út á það eitt að afnema einkarétt ÁTVR á sölu áfengis. Þetta frumvarp gengur ekki út á neitt annað. Mér finnst, með fullri virðingu fyrir háttvirtum þingmönnum sem hér hafa talað gegn þessu frumvarpi, eins og ég sé komin aftur í barnaskóla, svona 52 ár aftur í tímann. Menn eru að segja mér hvað mér eigi að finnast um allt annað en frumvarpið gengur út á. Frumvarpið gengur út að afnema einkarétt ÁTVR.

Misnotkun er af hinu vonda, ofnotkun er af hinu vonda. Hún viðgengst. Frumvarp þetta gengur ekki út á það. Frumvarpið gengur út á breytingu á sölu á áfengi. Við erum öll meðvituð um áfengismisnotkun, hvaða afleiðingar hún hefur í samfélaginu, forvarnir og allan þann pakka. En þetta frumvarp gengur ekki út á það. Það gengur út á breytingu á sölu á áfengi. Menn tala hér um allt annað en frumvarpið.

Menn geta haft skoðun á ýmsu því sem varðar áfengi en frumvarpið gengur út á breytingu á sölu, að afnema einkarétt ÁTVR.