135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[17:08]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur ekki hvarflað að mér til þessa að segja hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur hvað henni eigi að finnast um einstök mál. Ég þekki hana of vel til þess og veit að það mundi ekki hafa nokkra þýðingu.

Ég tel að mál mitt hafi verið alveg sérlega vandað og málefnalegt og ég er sannfærður um að flutningsmenn frumvarpsins eru sammála mér um það. Ég tel að ég hafi talað um efni frumvarpsins. Mín afstaða er sú að afnám einkasölunnar muni leiða til þess að aðgengi að áfengi verði meira. Ég tel að það muni hafa afleiðingar sem mér finnst mikilvægt að ræða í þessu samhengi. Það er ekkert flóknara en svo og þarf ekki mikið meira um það að segja. Ég tel því að ég hafi haldið mig við efni frumvarpsins eða öllu heldur afleiðingarnar af samþykkt frumvarpsins. Ég tel að það sé málefnalegt innlegg í þessa umræðu.