135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[17:13]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nú geta menn haft misjafnar skoðanir á því hvað það er að vera ofstækisfullur talsmaður sjónarmiða. Ég fullyrði að ég sé ekki ofstækisfullur talsmaður ríkisrekstrar. Ég er hins vegar talsmaður ríkisrekstrar þar sem það á við. Ég tel t.d. að ríkisrekstur eigi við í mörgum málaflokkum, t.d. í heilbrigðisþjónustu og menntamálum. Ég er sannfærður um að ég og hv. þm. Birgir Ármannsson erum ekki endilega sammála um það en það kalla ég ekki að vera ofstækisfullur talsmaður ríkisrekstrar.

Varðandi spurninguna um það hvort fjölgun útsölustaða ÁTVR sé af hinu illa þá tel ég svo ekki vera. Ég sagði að ég teldi að vera ætti ágætt aðgengi að þessari lögmætu vöru, en ég vil að það sé af hálfu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins og ég stend við þau sjónarmið.