135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[17:19]
Hlusta

Guðmundur Steingrímsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, þó að ÁTVR og vínbúðirnar séu góðar getur það varla verið grundvöllur að löggjöf um ríkisrekstur. Ég held að það sé hæpin röksemd fyrir löggjafann þó að í þessu tilviki sé dæmið þannig að ríkið standi ágætlega að rekstri, sem er reyndar nokkuð fyrir frjálshyggjumenn að hugsa um. En það er sem sagt raunin í þessu tilviki.

Hins vegar er oft talað um þetta mál eins og það snúist um að áfengi fari í búðir. Ég vil bara benda á það að áfengi er í búðum og það er í sérverslunum. Þær eru mjög víða og ég efast um að þetta hófsama frumvarp breyti það miklu eða valdi það mikilli byltingu í aðgengi Íslendinga að áfengi að eitthvað sé sérstaklega varhugavert við að samþykkja það.