135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[17:24]
Hlusta

Flm. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður má ekki gera mér upp skoðanir eða orð, ég hélt ekki neinu fram. Ég var bara að benda á, úr því að hv. þingmaður lítur á þetta mál sem heilbrigðismál og mál sem snúi að lýðheilsu, að í þessari umræðu, frá því að hún hófst, hefur einn læknir, fulltrúi heilbrigðisstéttanna á Alþingi, kvatt sér hljóðs. Hann heitir Þorvaldur Ingvarsson og er þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hann benti á það í umræðunni í gær að það væri kannski ekki alveg öruggt mál að aukið aðgengi að þessum vörum þýddi að neyslan mundi aukast. Hann benti á að neysla áfengis er mest á Grænlandi, 12 lítrar á hvert mannsbarn þar. En að sama skapi er aðgengið að þessum vörum verst í því landi. Það er ekki ég sem held þessu fram, ég var bara að vitna í ræðu sem hv. þingmaður flutti. Hann er læknir, fagmaður á þessu sviði og þekkir það (Forseti hringir.) ekki síður en sérfræðingarnir sem hv. þingmaður vísaði í. Ég vil endilega fá (Forseti hringir.) viðbrögð hans við þessum sjónarmiðum í umræðunni.